Undanfarið hefur verið neikvæð umræða um kennarastarfið í samfélaginu. Umræðan kom í kjölfar verðandi kennaraverkfalls. Hún hefur snúist um litla kennsluskyldu kennara, undirbúningstíma og hátt veikindahlutfall. Signý Ósk Sigurjónsdóttir er kennari í grunnskólanum í Hveragerði og er hún ósátt með hvernig talað er um starfið hennar.
„Virðingarleysið á sér engin mörk“
Signý setti á dögunum pistil á Facebook-síðu sína þar sem hún talaði um að henni fallist hendur yfir umræðunni um kennarastarfið.
„Get varla lýst því hvaða tilfinningar hafa fylgt þessari endalausu neikvæðu umfjöllun undanfarnar vikur. Þar sem starfið mitt, sem ég elska og sinni af metnaði og alúð, er dregið í gegnum flórinn. Virðingarleysið á sér engin mörk,“ segir Signý í upphafi pistilsins.
Hún segir að starfið sé miklu meira en að kenna börnum.
„Mig langar líka að koma því á framfæri að í minni umsjónarkennslu starfa ég með 20 nemendum, sem ég dýrka og dái. EN ég vinn ekki eingöngu með nemendum mínum heldur vinn ég líka með rúmlega 40 foreldrum sem ég er í stanslausum samskiptum við. Ég vinn líka að hagsmunum nemenda minna með öðrum sérfræðingum.“
„Þá er heldur ekki tekið inn í dæmið fjölda nemenda með íslensku sem annað tungumál, nemendur með greiningar, nemendur með einstaklingsnámskrár, nemendur með lestrar/námserfiðleika. Þessu tengdu þarf ég að sitja fjöldann allan af teymisfundum og skipuleggja einstaklingsmiðað nám fyrir þá nemendur sem ekki fylgja bekkjarnámskrám.“
„Getur einhver útskýrt það hvernig þessar breytur koma fram í þessum skítatölum?!“ segir Signý sem skilur ekki tölfræðina sem Viðskiptaráð hefur sett fram.
„Ég bið ykkur um að misskilja ekki, þetta er allt saman hluti af vinnunni minni sem ég hef alla jafna gaman að. Mig langar bara svo heitt og innilega að starfinu mínu (og mér!) sé sýnd sú virðing sem það á skilið.“
Nóg að gera í vinnunni
Dagskráin náði tali við Signýju til þess að fá enn betri innsýn inn í kennarastarfið.
Vinnudagurinn hennar er mjög fjölbreyttur. „Dagurinn byrjar á að hitta 20 káta krakka í 2. bekk, sem allir hafa frá einhverju spennandi að segja. Yfirleitt fæ ég nokkur knús og um það bil 15 „Signý, Signý“ fyrir klukkan 9. Sem umsjónarkennari á yngsta stigi er ég með nemendum mínum allar kennslustundir nema íþróttir og smiðjur. Þegar þau eru ekki hjá mér er nóg að gera í að undirbúa verkefni, fara yfir bækur, búa til námsefni, passa upp á lestrarbækur, svara tölvupóstum, hringja í foreldra og hitta aðra sérfræðinga til að fara yfir mál nemenda en ég sinni líka stundum forfallakennslu. Ég borða alltaf hádegismat með nemendum en um hádegisbil eru flest sjö ára börn orðin þreytt og því getur það verið snúið að skipuleggja kennslu og námsefni eftir hádegismat.“
Þegar börnin eru farin úr skólanum taka við önnur verkefni.
„Eftir kennslu tekur undirbúningurinn aftur við. Þá tökum við upp þráðinn og höldum áfram að sinna því sem ég taldi upp hér að ofan, þessi upptalning er alls ekki tæmandi og ýmis flókin mál sem þarf að leysa í samstarfi við foreldra og annað starfsfólk skólans. Auk þess þarf að mæta á fundi. Ég er eflaust að gleyma einhverju og dagarnir eru jafn mismunandi og þeir eru margir,“ segir Signý.
Gerir sitt besta fyrir börnin
Aðspurð að því hvernig Signý tekst á við kennslu þegar börnin eru með mismunandi þarfir og mismunandi námsefni segist hún gera sitt besta. „Þetta getur verið gríðarlega flókið og erfitt viðureignar. Ég viðurkenni alveg að stundum fæ ég nett kvíðakast yfir að vera ekki að gera nóg fyrir nemendur mína sem einstaklinga í skóla án aðgreiningar. Þá er mikilvægt að eiga góða samstarfsfélaga sem hjálpa manni að sjá allt það jákvæða sem ég er að gera og hversu mikið ég legg á mig. Töluverður hluti af undirbúningi fer í að huga að skóla án aðgreiningar.“
Signý segir góða vinnufélaga skipta miklu máli í starfinu. „Við erum tvær sem kennum 2. bekk og við vinnum mjög mikið saman að hinum ýmsu verkum. Það að vera í teymi með góðum vinnufélaga er ómetanlegt og stór hluti af því að ég elska vinnuna mína.“
Tölfræðin ekki vænleg til árangurs í skólastarfi
Signý segir undirbúningstímann sem hún fær í vinnunni nýtast vel. „Satt best að segja skil ég bara alls ekki hvernig þessir sjálfskipuðu sérfræðingar um skólamál geta leyft sér að segja að kennsluskyldan á Íslandi sé of lítil, sem leiðir af sér að undirbúningur sé of mikill hluti af starfinu. Það hefur verið bent á að í nágrannalöndunum sé þetta svona og hinsegin en ég sé ekki hvernig það kemur okkur við, þetta er í mörgum tilfellum alls ekki samanburðarhæft. Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að átta sig á því að tölfræði líkt og sú sem Viðskiptaráð og fleiri hafa verið að setja fram og rýna í er ekki nothæf eða vænleg til árangurs í skólastarfi. Það eru alltof margar breytur sem vantar inn í dæmin.“
Álagið allt of mikið
Þegar Signý var spurð út í hátt veikindahlutfall í stéttinni liggur hún ekki á svörum. „Í mínum huga er það mjög einfalt dæmi – allt of mikið álag. Fólk áttar sig ekki á því hvað það tekur mikinn toll af þér að vera ábyrgur fyrir námi 20 barna. Við viljum öll gera okkar besta og pressan er gríðarleg frá foreldrum og samfélaginu öllu. Starfið er svo fjölþætt og málin sem koma upp eru óteljandi og geta verið erfið og flókin viðureignar. Ofan á það kemur virðingarleysið í launamálum og hvernig starfið er talað niður í tíma og ótíma. Ég velti líka fyrir mér hvort aðrar starfsstéttir hafi þurft að vinna við jafn mikla myglu og kennarastéttin, eins og staðan í Reykjavík hefur sýnt. Eitt er allavega alveg ljóst að í kennarastéttinni er ekki fólk sem leikur sér að því að sitja veikt heima.“
Fríin ekki það besta við starfið
Signý segir nemendur sína vera það besta við starfið sitt. „Þessar litlu mannverur sem ég dýrka, sem treysta mér, sem leggja sig fram og sigrarnir þeirra – stórir sem smáir. Eins og ég sagði er gott samstarfsfólk líka dýrmætt.“
„Nú myndu margir vinir mínir segja í kaldhæðni: nú eru það ekki öll fríin? Nei, kæru vinir. Þó að ég elski svo sannarlega að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að geta verið í fríi þegar grunnskólabörnin mín tvö eru í fríi og að geta líka gefið leikskólabarninu mínu frí á sama tíma þá er það ekki það sem ég elska mest. Ég elska mest og best að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að hlakka til á hverjum degi (ok kannski flesta) að mæta í frábæru vinnuna mína sem ég legg mig fram við að sinna eins vel og ég get.“
Ætlaði sér alltaf að verða kennari
Aðspurð að því af hverju Signý valdi kennarastarfið minnist hún á afa sinn. „Ég hef alltaf ætlað að verða kennari og ætli afi minn, íslenskukennarinn, hafi ekki spilað stórt hlutverk í þeirri ákvörðun.“
„Ég er með B.Ed.-gráðu í grunnskólakennslu en eftir hana fór ég að vinna með fimm ára börnum í leikskóla og varð ástfangin af því starfi. Þá ákvað ég að fara í M.Ed.-nám í leikskólafræðum og útskrifaðist sem leikskólakennari og vann í leikskóla í 6 ár. Þegar lögunum um leyfisbréfin var breytt gerði það mér kleift að snúa aftur til upprunans og prófa að kenna í grunnskóla og hér hef ég verið í rúm fjögur ár.“
Hún segir ekkert annað starf geta gefið sér það sem hún fær í kennarastarfinu.
„Það er bara eitthvað við það að vinna með þessum snillingum. Tengingin sem myndast á milli nemenda og kennara er ólýsanleg og þó að þetta sé oft erfitt þá vita það allir sem þekkja mig að ég er fædd í þetta starf og ég elska það. Þegar ég hugsa um að skipta um starfsvettvang, sem gerist óhjákvæmilega þegar álagið er mikið og launaseðillinn eins og hann er, veit ég þrátt fyrir allt að það er ekki til annað starf sem myndi gefa mér það sama og ég fæ í kennarastarfinu.“