-0.5 C
Selfoss

Framkvæmdir hafnar við Búrfellslund

Vinsælast

Framkvæmdir eru hafnar við fyrsta vindorkuver landsins. Búrfellslundur eða Vaðölduver verður á 17 ferkílómetra svæði í kringum Vaðöldu í Rangárþingi ytra. Fulltrúar sveitarfélagsins, Borgarverks, verkfræðistofunnar COWI og Landsvirkjunar fögnuðu þessum áfanga í gær.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Við þetta tilefni heimsótti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, verkstað við Vaðöldu. Á svæðinu er jarðvegsvinna hafin, veglagning og undirbúningur fyrir uppsetningu vinnubúða.

„Það er mikið fagnaðarefni að framkvæmdir séu hafnar við Búrfellslund,“ sagði Guðlaugur Þór. „Við vitum öll að það er mikil þörf fyrir aukna endurnýjanlega orku til að mæta vexti samfélagsins og bæta raforkuöryggi. Þetta er heillaskref í sögu þjóðarinnar og gott að sjá hversu vel hefur verið vandað til verka hjá Landsvirkjun í þessu verkefni.“

Sveitarstjóri Rangárþings ytra, Jón G. Valgeirsson, tók undir þetta: „Það er gaman að verða vitni að þessum merku tímamótum í Íslandssögunni. Hér hjá okkur mun fyrsti hluti þessarar þriðju stoðar orkukerfisins rísa.“

Tímabært að hefjast handa

Í tilkynningu Landsvirkjunar kemur fram að búið sé að velja vindmylluframleiðanda eftir útboð á fyrri hluta árs. Verið er að ganga frá samningum og verður tilkynnt hvaða framleiðandi átti hagstæðasta tilboðið á næstu dögum. Vindmyllurnar verða reistar á árunum 2026 og 2027 og verður fyrri hluti vindorkuversins gangsettur haustið 2026.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar fagnar því að þetta mikla nýframkvæmdatímabil hjá fyrirtækinu sé hafið:

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hjólin vera farin að snúast hér á Þjórsár-Tungnaársvæðinu þar sem umfangsmiklar framkvæmdir verða næstu árin. Það er ekki bara bygging vindorkuversins hér við Vaðöldu heldur er líka um að ræða byggingu Hvammsvirkjunar og stækkun Sigölduvirkjunar. Undirbúningur þessara verkefna hefur staðið áratugum saman og tímabært að hefjast handa.“

Nýjar fréttir