Tvær deildir á leikskólanum Óskalandi í Hveragerði verða lokaðar á morgun eftir að barn á leikskólanum greindist með E.coli í dag. Barnið var í leikskólanum Mánagarði en hóf aðlögun í Óskalandi á mánudag.
Er greint frá þessu á Rúv.is.
Gunnvör Kolbeinsdóttir, leikskólastjóri á Óskalandi, segir í samtali við Rúv að foreldrar hafi verið upplýstir um stöðuna. Þeir verði að fylgjast með hvort einkenni komi upp hjá börnum sínum.
Leikskólinn verður þrifinn hátt og lágt á morgun en ekki er talið líklegt að fleiri börn hafi smitast. Gunnvör segir barnið hafa verið lítið í snertingu við börn og starfsmenn á meðan það var í aðlögun.