-4.1 C
Selfoss

Osso buco sem allir elska

Vinsælast

Tryggvi Hofland Sigurðsson er matgæðingur vikunnar.

Ég þakka vinkonu minni og verndara skífuvinfjélagsins Guðjónu, fyrir áskorunina.

Nú styttist óðfluga í veturinn með tilheyrandi kertaljósum og kósý og þá er fátt betra en kraftmikill matur sem er eldaður með ást og gleði í hjarta. Tilvalið er að skella einhverjum þægilegum tónum á fóninn og jafnvel hella sér rauðvínstári í glas.

Ég ætla að elda með ykkur frægan rétt sem ég held svei mér þá að allir elski og best er að gefa sér nægan tíma í að nostra við, því lengur því betra, en þessi réttur er áætlaður fyrir 6-8 manns. Best þykir mér að elda réttinn í pottajárnpotti með loki, en stálfat eða eldfast mót með álpappír yfir er líka alveg í topplagi. Í þessa uppskrift geturðu notað t.d. kálfaskanka, nautaskanka eða lambaskanka.

Osso buco

8 sneiðar af nautaskanka

2 meðalstórir laukar gróft skornir (eða skalottulaukur 3 stk)

3-4 meðalstórar gulrætur, gróft skornar

2 stilkar af selleríi, skorið í bita

3 greinar timían, 2 greinar rósmarín, 3 stk lárviðarlauf

5 hvítlauksgeirar

1 dós niðursoðnir tómatar

1-2 tsk tómatpurré

5 dl af kjúklingasoði (kjúklingakraftur og vatn)

2 dl hvítvín (ef þú átt opna rauðvín, má alveg nota það í staðinn)

Best þykir mér að krydda skankana með salti og pipar á báðar hliðar og setja þá bara til hliðar á meðan ég sker grænmetið niður.

Síðan hita ég ólífuolíu í pottinum góða svona um það bil tvær msk., svo velti ég skönkunum uppúr hveiti og brúna þá vel í pottinum eða í um það bil 3-4 mín. á hverri hlið, og kjötið er sett til hliðar.

Næst steiki ég laukinn, gulræturnar, selleríið og hvítlaukinn á meðalháum hita þar til að laukurinn fer að mýkjast. Þegar að þessu er lokið er niðursoðnum tómötum, tómatpurré og kjúklingasoði hellt yfir grænmetið og látið malla í um það bil 15 mín, salt og pipar eftir smekk.

Bætið þá tímíani, rósmaríni og lárviðarlaufi út í og raðið kjötinu yfir grænmetið og hellið svo víninu yfir allt saman og allt látið malla í um það bil 20 mín. Gott er að fá sér smá tár á meðan þú bíður, best er að vökvinn dekki 3/4 af pottinum.

Skellið svo bara lokinu á pottinn og setjið inní heitan ofn við 190°C í eina klukkustund, snúið þá skönkunum við og setjið aftur í ofninn í um það bil eina klukkustund og 20 mín.

Nú þegar þetta lostæti er klárt, þá er skönkunum raðað fallega á fat og grænmetinu og hluta af vökvanum hellt yfir, og svo toppað með gremolata. Gott er að bera fram með þessu kartöflumús, nýupptekið smælki eða jafnvel hrísgrjón.

Gremolata

Fínsöxuð steinselja (um það bil 4 msk)

2 raspaðir hvítlauksgeirar

Rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu

Salt og pipar

Mig langar að þakka fyrir mig og í leiðinni skora á góða vinkonu mína sem er geggjaður keppnismaður. Hún mun ekki skorast undan þessari áskorun og ég veit að það kemur eitthvað hrikalega gott frá henni, er það ekki Lóreley Sigurjónsdóttir?

Verði ykkur að góðu.

Nýjar fréttir