-3.1 C
Selfoss

Laugarvatn frábær staður fyrir útinám

Vinsælast

Í Bláskógaskóla á Laugarvatni hefur verið virkt útinám síðan 2001. Nemendur fara einn dag í viku í útinám þar sem þorpið sjálft og umhverfi skólans er skólastofan. Í útináminu er mikil samþætting námsgreina þar sem auðvelt er að finna verkefni úr öllum fögum. Útinám er frábær vettvangur til að hjálpa nemendum að auka samkennd, samvinnu, sjálfstæði, sköpun, seiglu, samskipti og svo mætti lengi telja.

Ljósmynd: Aðsend.

Hallbera Gunnarsdóttir kennari í Bláskógaskóla segir börn ekki leika sér eins mikið úti og þau gerðu áður. „Því sjá þau oft ekki tækifærin og möguleikana sem náttúran og útiveran hefur upp á að bjóða og mæta þar af leiðandi oft ekki raunverulegum hindrunum sem á vegi þeirra verða, sem er yfirleitt auðvelt að komast yfir ef þau bara stoppa, hugsa og hjálpast að.“

Hún segir að unnið sé markvisst að því að hjálpast að við að koma tilfinningum í orð og ræða það í tímum. „Við þessa vinnu notum við Dyggðaspjöld sem eru snilldarverkfæri við þessa vinnu.“

Ljósmynd: Aðsend.

Hallbera segir Laugarvarn frábæran stað fyrir útinám. „Þorpið sjálft stendur við Laugarvatnsfjall og því auðsótt að komast í fjallgöngu eða í skógarferð við fjallsrætur. Vatnið sjálft togar alltaf í okkur svo við notum það mikið. Þar er hægt að veiða, dorga í gegnum ís, fara á standbretti eða báta, fara á skauta og skíði og svo er auðvitað alltaf gaman að vaða og synda aðeins. Fuglalífið á og við vatnið er líka mikið og oft tökum við þátt í verkefnum með HÍ, t.d. að fylgjast með hvenær hvaða fuglar koma og fara og geta þannig fengið betri vísbendingar um hlýnun jarðar. Hverinn er líka á sínum stað. Þar getum við bakað, eldað, hitað okkur kakó eða spáð í ferðalagi gufunnar.“

Ljósmynd: Aðsend.

„Í gegnum tíðina höfum við útbúið „kennslustofur“ á fjölmörgum stöðum. Þar erum við stöðugt að endurbæta og reyna að halda við og felst í því heilmikill lærdómur. Við kveikjum oft bál sem við nýtum okkur til að elda eða grilla en fyrst og fremst til að skapa notalega stemningu til að fara í leiki, ræða málin, minna okkur á hvað við erum heppin að búa á Íslandi og spá í hversu einstakt og sérstakt lífið er,“ segir Hallbera að lokum.

Nýjar fréttir