Góð mæting var á leikreglunámskeið í blaki sem haldið var í Selinu á Selfossi í gær, en 25 blakarar frá Dímon/Heklu, Laugdælum, Hrunamönnum og Hvöt mættu, 24 konur og einn karl.
Það var blaknefnd HSK sem stóð fyrir námskeiðinu, en nefndin hafði fengið styrk úr Verkefnasjóði HSK vegna þessa verkefnis.
Það var Sævar Már Guðmundsson alþjóðlegur dómari í blaki sem sá um kennsluna. Á námskeiðinu var m.a. farið yfir leikreglurnar og þær breytingar sem gerðar hafa verið. Bendingar dómara eru einnig mikilvægar og farið var vel yfir þær. Þá var talað um dómgæslu almennt, agamál og framkvæmd blakleikja. Allt eru þetta mikilvæg atriði sem blakarar þurfa að kunna deili á en í þessu sambandi má nefna að keppendur á blakmótum HSK hafa sjálfir séð um dómgæslu á mótum sambandsins.