2.8 C
Selfoss

Fjölbreytt úrval viðburða í Árborg um helgina

Vinsælast

Menningarmánuðurinn október er í fulllum gangi í Árborg með viðburðum þar sem allir aldurshópar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Myndasöguhöfundurinn Bjarni Hinriksson mætir á Bókasafn Árborgar í dag fimmtudag frá 17-18 og kynnir nýja bók sína Vonarmjólk.

Bjarni Hinriksson hefur fengist við gerð myndasagna í rúm fjörutíu ár og verið leiðandi á því sviði, einn fárra á Íslandi til að einbeita sér að þessu tjáningarformi.

Með sögum, sýningahaldi, útgáfu, skrifum, þýðingum og kennslu hefur Bjarni unnið að því að skapa myndasögunni vettvang á Íslandi.

VONARMJÓLK

 

Í kvöld klukkan 19-21 verður sögukvöld um mjólkurbúshverfið og börnin þar í stóra salnum í Grænumörk. Kjartan Björnsson forseti bæjarstjórnar stýrir kvöldinu.

Þau sem voru börn mjólkurbúshverfinu 1945 – 1965 kalla sig Mjólkurbúsbörn. Þau hafa hist undanfarin misseri til þess að endurnýja gömul kynni og rifja upp minningar æskudaganna. Hópurinn hefur verið í sambandi við stjórn sveitarfélagsins og lýst áhuga sínum á að hverfisins og frumbyggjanna þar verði minnst og stuðlað að varðveislu á sögu þessa einstæða samfélags.

Á sögukvöldinu munu fjögur fyrrverandi börn úr hverfinu segja frá lífinu þar upp úr miðri síðustu öld og sýna ljósmyndir frá æskuárunum. Framsögumenn eru Ingibjörg Sigurðardóttir, Ólafur Sigurðsson, Eydís Katla Guðmundsdóttir og Eiríkur G. Guðmundsson.

Sögukvöld um mjólkurbúshverfið og börnin þar

Leikfélag Selfoss frumsýnir verkið Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur föstudaginn 25. október.

Sýningin fjallar um vinina Dúu, Duddu og Didda og er þeim fylgt gegnum lífið nánast frá vöggu til grafar með öllu því sem líf þeirra hefur upp á að bjóða í blíðu og stríðu.

Fimm leikarar eru í uppsetningunni og spanna breitt aldursbil, koma úr ýmsum áttum og eru sumir að stíga sín fyrstu skref meðan aðrir hafa mikla reynslu með leikfélaginu. Leikstjóri er Jónheiður Ísleifsdóttir

Listin að lifa í Litla leikhúsinu við Sigtún

Laugardaginn 26. október verður Hrekkjavökuföndur fyrir börn á öllum aldri á Selfossi og Eyrarbakka.

Aðgangur er ókeypis.

Hrekkjavökuföndur á Myrkradögum | Bókasafn Árborgar, Selfoss & Eyrarbakka

26. – 27. október verður opið í Laugabúð á Eyrarbakka. Sérstakt hátíðarverð verður á púsluspilum sem fást hvergi á landinu nema í Laugabúð.

Einnig verður boðið upp á stutta sögugöngu um vestanverðan Eyrarbakka 26. október, ef veður leyfir. Lagt verður af stað frá Laugabúð kl. 14:00

Laugabúð Eyrarbakka | Opið & Söguganga

Nýjar fréttir