3.9 C
Selfoss

Kynnisferðir í eigendahóp Reykjabaðanna

Vinsælast

Kynnisferðir er komið í eigendahóp Reykjabaðanna og hefur félagið nú eignast þriðjungshlut á móti núverandi eigendum. Reykjaböðin verða byggð upp á Árhólmasvæðinu í Hveragerði við minni Reykjadalsins.

Reykjadalsskálinn var fyrsti áfanginn en nú er tekið næsta stóra skrefið með byggingu náttúrubaða í viðamikilli heildaruppbyggingu á svæðinu en Reykjadalsfélagið og Hveragerðisbær kláruðu fyrr á árinu nýtt deiliskipulag. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri þjónustu þar sem The Greenhouse Hotel mun starfrækja gistingu á svæðinu en einnig verður byggð upp frekari veitingastarfsemi og aðstaða fyrir mismunandi viðburðarhald. Áhersla verður á að efla enn frekar útivist og afþreyingu á svæðinu en þegar er fyrir starfsemi Mega Zipline, hjólaferðir með Icebike Adventures og hestaferðir með Sólhestum.

„Árhólmar henta einstaklega vel fyrir baðstarfsemi en mikill jarðhiti er á svæðinu ásamt góðu aðgengi að heitu vatni. Þegar leggja hundruð þúsunda ferðamanna leið sína í Reykjadalinn til að stunda útivist, ganga dalinn og upplifa heita lækinn. Náttúrufegurð er mikil á svæðinu og staðsetningin er líka frábær þar sem hún er stutt frá Reykjavík og við upphaf og enda Gullna hringsins. Upplifun gesta í böðunum verður í fyrirrúmi í töfrandi umhverfi þar sem hverir bubbla og reykur stígur upp úr jörðinni allt um kring. Markmið Reykjabaðanna er að skapa notalega stemningu með sterkri tengingu við náttúruna fyrir gesti á öllum árstíðum,“ segir Brynjólfur J. Baldursson, stjórnarformaður Reykjabaðanna.

Jarðframkvæmdir á svæðinu hófust fyrr á árinu og er vegakerfið langt komið. Einnig er verið að leggja lokahönd á grunni lónsins en nú stendur einmitt yfir val á verktökum sem koma til með að sjá um framkvæmdir lónsins og tengdra mannvirkja.

Reykjaböðin fullfjármögnuð með samstarfi við Arion banka

Brynjólfur segir Reykjaböðin vera metnaðarfullt uppbyggingarverkefni á svæði Árhólma í Hveragerði og hefur það að fullu verið fjármagnað með eigið fé eigenda og lánsfjármögnun frá Arion banka. Mjög gott samstarf hefur verið á milli eigendahópsins og bankans frá upphafi en bankinn sá einnig um lánsfjármögnun Gróðurhússins í Hveragerði sem og Reykjadalsskálans sem er þjónustumiðstöð og kaffihús sem opnaði árið 2021 við rætur Reykjadalsins. Nú er stigið nýtt skref í frekari uppbyggingu á þessum fallega stað með nýju náttúrulóni sem mun auka enn frekar á afþreyingu og þjónustu við heimamenn og gesti svæðisins.

Spenntir fyrir samstarfinu

Brynjólfur J. Baldursson, stjórnarformaður Reykjabaðanna segir jákvætt að fá Kynnisferðir í eigendahópinn. „Það er mikill fengur að fá Kynnisferðir í eigendahópinn en félagið er leiðandi í íslenskri ferðaþjónustu. Reynsla þeirra og þekking mun skila sér vel í uppbyggingunni og mikill styrkur að fá þá inn í verkefnið nú í upphafi framkvæmda. Við erum einnig mjög ánægð með frábært samstarf við Arion banka í þessari spennandi uppbyggingarvegferð á svæðinu.“

Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða er spenntur fyrir verkefninu. „Það er ánægjulegt að vera komin inn í eigandahópinn á þessu spennandi verkefni. Við sjáum mikil tækifæri í baðlóni á þessum stað við minni Reykjadalsins. Árhólmasvæðið er mjög vel staðsett fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn og mjög áhugaverð uppbygging þar í gangi sem fellur vel að starfsemi okkar.“

Benedikt Gislason, bankastjóri Arion Banka, hlakkar til samstarfsins. „Samstarf Arion banka og Reykjadalsfélagsins á Árhólmasvæðinu síðastliðin ár hefur verið farsælt. Fyrirhuguð uppbygging Reykjabaðanna er virkilega spennandi verkefni og fögnum við aðkomu Kynnisferða að því og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“

Nýjar fréttir