-3.2 C
Selfoss

Galdrakonan í Þorkelsgerði í Selvogi

Vinsælast

Við Ólafur Kristjánsson í Geirakoti guðuðum á gluggann hjá Sigurbörgu Eyjólfsdóttur í Þorkelsgerði í Selvogi, hún kom til dyra og ég ávarpaði hana með þessum orðum: „Sæl veri galdrakonan í Þorkelsgerði.“ „Ég er engin galdrakona en séra Eiríkur í Vogsósum var mestur galdraprestur allra tíma og átti Gullskinnu,” svaraði hún.

Bauð Sigurbjörg okkur inn í stofu og sagðist hafa séð séra Eirík, eða svip hans, við Eiríksvörðu í Svörtubjörgum. Teiknaði hún prest og hangir myndin í stofu hennar. Síðan fræðir hún okkur Ólaf á því að svo göldróttur hafi prestur verið að margir efuðust um að hann kæmist í himnaríki. Kölski myndi hirða bráð sína. Eiríkur sagði mönnum að fylgjast með þegar hann yrði jarðaður frá Strandakirkju. Þá myndu tveir stórir fuglar berjast upp á líf og dauða, annar svartur en hinn hvítur. Þeir gætu ráðið ef sá hvíti ynni viðureignina færi hann til himnaríkis. Þeir sem komu til útfararinnar sáu ógnvænlega viðureign fuglanna fyrir jarðarförina og sá svarti lá dauður eftir átökin.

Í stofu Sigurbjargar bar margt fyrir augu okkar en mest áberandi var mynd af Lúther, teiknimyndin af séra Eiríki og mörg listræn verk listakonunnar.

Þegar í eldhúsið kom og rauk úr kaffibollunum fræddi hún okkur um það að í Selvoginum, Snæfellsnesi og Þórsmörk væri orkan mest og nándin við duldakrafta. Sigurbjörg sagði að hvergi liði sér betur en í Þorkelsgerði og margir dagar þar væru dýrðlegir þar sem hafaldan brotnar við strönd og veður geta verið hörð yfir veturinn en yndislegir sumar- og haustdagar væru oft himneskir.

Sigurbjörg í eldhúsinu.
Ljósmynd: Guðni Ágústsson.

Strandakirkja er við Engilvík og á sér fræga sögu um ungan bónda í Árnessýslu sem var að sækja sér efnivið í bæ sinn til Noregs en lenti í sjávarháska og hafvillum. Ljósengill leiðir hann milli skerjanna til lands í Selvogi. Áður hafði bóndinn heitið á drottin að ef þeir björguðust myndi hann reisa kirkju þar sem þeir næðu landi. Kirkjan reis og varð mesta áheitakirkja landsins og safnaði gulli. Margir kannast við áheit í ætt sinni. Ég minnist þess að faðir minn Ágúst á Brúnastöðum hét á kirkjuna með þeirri bæn að hann fengi rafmagnið að Brúnastöðum en ríkið hafði neitað honum um rafmagn, bærinn væri afskekktur og of löng leið að leiða rafmagnið. Eins og við mennina mæltum kom rafmagnið árið eftir eða 1954.

Að lokum leiddi Sigurbjörg okkur í listagallerýið sitt sem er braggi. Hún fræðir okkur á því að bragginn sé galdrahús sem veður nái ekki tökum á snúi hann rétt. Í bragganum er margt að skoða, myndir og málverk en mesta athygli vakti gömul fjósaskófla sem Þórarinn í Laugardælum gaf henni og skófluna prýðir andlit aldanna. Og auðvitað mundi ég eftir skóflunni frá fjósameistaraárum mínum í Laugardælum. Hafrekið sprek, ryðgað járn og steinar fá augu og andlit og segja sögu í höndum listakonunnar.

Gústi guðsmaður.
Ljósmynd: Guðni Ágústsson.

Við Ólafur kveðjum listakonuna undir kvöld sannfærðir um þann mátt sem í Selvogi býr. Engillinn er enn til staðar, Strandakirkja hjálpar fólki í nauð og Eiríkur í Vogsósum vakir enn yfir sveit sinni. Andi Einars Benediktssonar skálds berst frá Herdísarvík og Surtla jarmar, ein dáðasta sauðkind allra tíma sem sigraði bandaríska herinn áður en hún var myrt. Og nú er listakonan Sigurbjörg Eyjólfsdóttir orðin fræg galdrakona fyrir list sína.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir