7.3 C
Selfoss

Gjaldskylda hefst í nýja bílastæðahúsinu í miðbænum

Vinsælast

Gjaldskylda hefst í vikunni í nýja bílastæðahúsinu við miðbæinn á Selfossi. Að sögn Vignis Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Sigtúns Þróunarfélags, eru framkvæmdir við neðri hæð hússins á lokametrunum en efri hæð bílastæðahússins var opnuð umferð um miðjan september. Klukkutíminn í bílastæðahúsinu mun kosta 250 krónur en fyrstu 15 mínúturnar verða gjaldfrjálsar. „Þetta eru upphæðir sem eru í samræmi við ódýrustu bílastæðaflokkana í höfuðborginni,“ segir Vignir, en pláss er fyrir 220 bíla í bílastæðahúsinu. „Við reisum þessa byggingu til hagsbóta og þæginda fyrir gesti miðbæjarins. Einnig er hægt fá langtímastæði í áskrift, sem er góður kostur fyrir fólk sem býr eða starfar í nágrenninu.“

Bílastæðahúsið er rekið í samvinnu við Parka, sem er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði eftirlits og innheimtu á bílastæðum. „Hægt er að greiða í greiðsluvél í bílastæðahúsinu en við hvetjum alla til að ná í Parka-appið þar sem greiðsluferlið er að mestu sjálfvirkt og mjög þægilegt fyrir notendur,“ segir Vignir.

Nýjar fréttir