7.3 C
Selfoss

Ópera fyrir leikskólabörn heimsótti sex leikskóla á Suðurlandi

Vinsælast

Í vor og haust á þessu ári heimsótti Ópera fyrir leikskólabörn leikskólana í Vík, Hvolsvelli, Hveragerði, Kirkjubæjarklaustri, Eyrarbakka og Stokkseyri og vakti mikla lukku. Frumkvöðull og höfundur óperuleiksýningarinnar er Alexandra Chernyshova, óperusöngkona og tónskólastjóri í Vík, sem söng hlutverk Álfadrottningarinnar. Alexandra er einnig tónskáld óperutónlistar sýningarinnar, sem kemur úr óperuballettinum Ævintýrið um norðurljósin. Óperan er samin eftir ævintýrasögu sem gefin var út sem bók og samin eftir móður Alexöndru, Evgeniu, í þýðingu Árna Bergmann. Ævintýrið um norðurljósin er samið fyrir níu einsöngvara, tíu sólódansara, tvo kóra og ballett. Óperan var frumflutt árið 2017 í Norðurljósasal í Hörpu í Reykjavík með hljómsveit, kór og ballettdönsurum úr danskóla Eddu Scheving. Á síðasta ári var gefið út rafrænt kennsluefni með lögum úr óperunni Ævintýrið um norðurljósin fyrir söngnemendur tónlistarskóla og fyrir kennslu í tónmennt. Hægt er að gera ljósrit með myndum eftir Önnu Torfadóttur úr bókinni og búa til Álfadrottningu. Sýningin Ópera fyrir leikskólabörn var samin sérstaklega fyrir eldri börn á leikskólaaldri úr stóru óperusýningunni. Markmið verkefnisins er að kynna fyrir yngstu áhorfendum hvað ópera er og opna töfrahurð hennar. Með Alexöndru kom fram barítonsöngvari, sem er einnig dansari og hljóðmaður í sýningunni, Jón Svavar Jósefsson. Hann fór með hlutverk íkornans Ratatosk. Flytjendur leiddu leikskólakrakkana inn í ævintýraheim óperunnar og voru klædd í töfraóperubúninga. Börnin fengu að dansa og syngja með, hlusta á óperutónlist og kíkja inn fyrir töfrahurð óperunnar. Óperusýningin á síðustu árum hefur verið kynnt fyrir leikskólum á Akureyri, Reykjavík, Reykjanesbæ, Vogum, Grindavík og nú á Suðurlandi. Rúmlega fjögur þúsund börn hafa séð sýninguna og alltaf við frábærar móttökur. Styrktaraðilar sýningarinnar á Suðurlandi að þessu ári eru Uppbyggingarsjóður Suðurlands, foreldrafélög og sveitarfélög á svæðinu og DreamVoices fræðslu- og menningarfélag.

Jón Svavar Jósefsson og Alexandra Chernyshova.
Ljósmynd: Aðsend.
Ljósmynd: Aðsend.
Jón Svavar Jósefsson, Berglind Hauksdóttir og Alexandra Chernyshova.
Ljósmynd: Aðsend.
Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir