7.3 C
Selfoss

Fyrirlestur um nýsköpun búhátta í sunnlenskum sveitum

Vinsælast

Sunnudaginn 20. október kl. 14 heldur Bjarni Guðmundsson, prófessor á Hvanneyri, fyrirlestur um nýsköpun búhátta í sunnlenskum sveitum á fyrri hluta 20. aldar. Fyrirlesturinn er á vegum Byggðasafns Árnesinga og verður í varðveisluhúsi safnsins að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka.

Bjarni hefur rannsakað búhætti á Íslandi á 20. öld og sent frá sér margar bækur og greinar um efnið. Þar má nefna snjalla bók um útbreiðslu dráttarvélarinnar Ferguson. Bjarni veitti Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri forstöðu til 2017 en áratugum saman á undan starfaði hann að kennslu og rannsóknum við Bændaskólann á Hvanneyri. Hans nýjasta bók heitir Búverk og breyttir tímar og fjallar um nokkur verk og verkfæri sem alþekkt voru á síðustu öld en hafa ýmist horfið úr verkahring bænda eða breyst í helstu atriðum. Bjarni mun leggja áherslu á breytingar í búháttum sunnlenskra bænda.

Bjarni Guðmundsson.
Ljósmynd: Aðsend.

Að fyrirlestri loknum verða umræður og kaffispjall. Hér er tilvalið fyrir gamla nemendur Bjarna að hitta og hlýða á sinn gamla læriföður. Þetta er líka gott tækifæri til að fræðast um gömlu heyvinnuvélarnar sem lúra í hlaðvarpanum. Fyrirlesturinn er dagskrárliður í Menningarmánuði Árborgar. Aðgangur er ókeypis.

Nýjar fréttir