-1.6 C
Selfoss

Evrópsk gervigreind mun keyra í Þorlákshöfn

Vinsælast

Ölfus Cluster og AI Green Cloud ehf. hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að gangsetja vistvænt gervigreindargagnaver á næsta ári. Gagnaverið muni hýsa leiðandi vélbúnað frá NVIDIA, tæknirisanum sem hefur skipað sig í sessi sem heillakýr gervigreindarbyltingarinnar (hlutabréf NVIDIA hafa þrefaldast í virði á síðustu 12 mánuðum).

Þetta er samstarfsverkefni um nýtingu á 20 Megavöttum til að keyra miðstöð gervigreindar í Evrópu á næstu 5 árum.

45% minni orkunotkun en í venjulegum gagnaverum

Með nýrri kælitækni sem kallast djúpkæling (e. immersion cooling) er tölvum og kísil steypt ofan í kælitanka með sérútbúnum vökva. Þessi kæling skilar áætluðum 45% heildarorkusparnaði samanborið við hefðbundin loftkæld gagnaver.

„Þetta verkefni passar mjög vel við stefnu Ölfus varðandi grænan iðngarð og hringrás hliðarstrauma. Um er að ræða enn eitt eggið í stækkandi körfu atvinnutækifæra á svæðinu ásamt því að verkefnið mun skila spennandi nýrri tækniþekkingu inn í sveitarfélagið” sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Þorlákshafnar.

Varmi endurnýttur í önnur verkefni

Ölfus Cluster mun aðstoða við að tryggja hentuga staðsetningu fyrir starfsemina þar sem innviðir á borð við rafmagn og gagnaflutninga verða brátt til staðar.

Háþróaða gangaverið muni geta endurnýtt 80% þess varma sem myndast við að keyra stór gervigreindarlíkön á vélbúnaði þess.

Þróuð verður aðferð til að nýta úttaksvarmann af 55 gráðu heitu vatni í önnur verkefni á svæðinu. Með þessu má ná allt að 80% endurnýtingu á orku sem er mjög í línu við þá stefnu sem grænir iðngarðar í Þorlákshöfn hafa lagt fram.

“Vélbúnaðurinn sem keyrir gervigreindina sem við erum öll farin að nota í dag krefst mikillar orku og býr því til mikinn hita. Nú fyrst getum við hagnýtt þennan affallsvarma og veitt honum í önnur verkefni sem geta nýtt hann,” sagði Kjartan Hrafn Kjartansson, forstjóri AI Green Cloud ehf.

AI Green Cloud ehf. stefnir á að tryggja uppbyggingu og þekkingu í gervigreind á Íslandi til framtíðar. Það er í nánu samstarfi við „GPU as a Service” (GaaS) fyrirtækið AI Green Bytes AS frá Noregi, sem leiðir þróun, rekstur og þjónustu á djúpkælingu í gagnaverum með NVIDIA-búnaði.

Í upphafi er um að ræða um 0,6 MwH af rafmagni sem gæti stækkað í allt að 20 MW yfir næstu 5-10 árin.

AI Green Cloud ehf. var stofnað árið 2024 af íslenskum fjárfestum í þeim tilgangi að styðja við hringrásarhagkerfið í gagnaverum á Íslandi. Ölfus Cluster er áhersluverkefni Sveitarfélagsins Ölfus við að styrkja umhverfismál og fjölgun starfa. AI Green Bytes AS var stofnað árið 2023 og er með höfuðstöðvar í Noregi og skrifstofur í Portúgal og nú einnig á Íslandi.

Frá undirskrift viljayfirlýsingar.
Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Ölfus Cluster og Kjartan Hrafn Kjartansson forstjóri AI Green Cloud ehf.
Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir