3.9 C
Selfoss

Spennandi helgi framundan í Menningarmánuðinum október

Vinsælast

Menningarmánuðurinn október er í fullum gangi og óhætt að segja að hann sé stútfullur af áhugaverðum og skemmtilegum viðburðum.

Fimmtudaginn 10. október verður Sabína Steinunn Halldórsdóttir á bókasafninu á Selfossi og kynnir fjölskylduspilið Úti eru ævintýri! – 101 verkefni í náttúrunni.

Á laugardagsmorguninn verður boðið upp á ritsmiðju fyrir 13 ára og eldri á safninu. Það er sviðslista- og skáldkonan Hera Fjord sem mun leiða ritsmiðju í skapandi skrifum.

Tónlistin á Bakkanum og Skálds Saga Steinunnar

Föstudagskvöldið 11. október verða kvöldvökur í heimahúsum á Eyrarbakka en þá munu félagar úr Söngfjelaginu og Leikfélagi Eyrarbakka endurvekja gömlu kvöldvökustemmninguna með söng og sögum í völdum heimahúsum á Bakkanum.

Á laugardeginum 12. október verða samræður með tóndæmum Varðveisluhúsi Byggðasafnsins þar sem m.a. verður spurt: Er Bakkinn kannski vagga íslenskrar tónlistar?

Síðar sama dag verða hátíðartónleikar í Eyrarbakkakirkju. Þar verður frumflutt nýtt tónverk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur auk þess sem Söngfjelagið, ásamt einsöngvurum, flytur lög eftir tónskáld með tengsl við Eyrarbakka. Stjórnandi er Hilmar Örn Agnarsson.

Laugardagurinn endar svo í Litla leikhúsinu við Sigtún 1 á Selfossi en þar ætlar Leikfélag Selfoss að blása til kvöldstundar kringum glóðvolga Skálds Sögu Steinunnar Sigurðardóttur.

Bréfdúfur, opin vinnustofa, sýningar og söngstund

Það ætti enginn að þurfa að láta sér leiðast sunnudaginn 13. október. Þau sem vilja taka daginn snemma ættu að bregða sér í heimsókn til Ragnars Sigurjónssonar bréfdúfubónda í Brandshúsum í Flóa. Ragnar ætlar að taka á móti gestum í tilefni af menningarmánuðinum október. Hann á fjöldann allan af fuglum, hænur og hefðardúfur og nýverið bættist Smyrill í hópinn.

Ragnar Sigurjónsson.

Guðrún Tryggvadóttir myndlistarkona verður einnig með opið hús sunnudaginn 13. október. Vinnustofan hennar er að Sóltúni 9 á Selfossi og þangað eru öll hjartanlega velkomin.

Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið verða opin og þar má m.a. sjá sýningarnar Konurnar á Eyrarbakka og Gullspor.

Síðdegis, sunnudaginn 13. október, verður opin söngstund í Selfosskirkju með öllum kórum kirkjunnar ásamt félögum úr Kirkjukór Hraungerðis- og Villingaholts.

Nýjar fréttir