3.9 C
Selfoss

Vetrartónar í Stokkseyrarkirkju

Vinsælast

Vetrartónar er ný tónleikaröð sem fer fram í Stokkseyrarkirkju. Tónleikarnir verða sex talsins en þeir fyrstu fóru fram í byrjun september þegar Kór Íslendinga í Hollandi flutti ættjarðarsöngva. Tónleikarnir voru jafnframt dagskrárliður á menningar- og uppskeruhátíðinni Haustgildi og voru vel sóttir. Í tilefni Menningarmánaðarins október í Árborg verða næstu tónleikar Vetrartóna með afar sérstöku sniði. Þriðjudagskvöldið 15. október kl. 20:00 mun hinn virti og rómaði tónlistarhópur Nordic Affect flytja þjóðlaga- og barokktónlist er tengist hafinu. Selshamur, fárviðri, hafballaða og margt fleira kemur við sögu en sérstakir gestir verða Ian Wilson blokkflautuleikari og Eyjólfur Eyjólfsson söngvari og langspilsleikari sem einnig er listrænn stjórnandi Vetrartóna.

Eyjólfur Eyjólfsson.
Ljósmynd: Aðsend.

Efnisval tónleikaraðarinnar er fjölbreytt og metnaðarfullt. Sérstök áhersla er lögð á tónlistararf strandarinnar og eru flytjendur tónleikaraðarinnar margir af fremsta tónlistarfólki landsins. Hjónin Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzó-sópran og Francisco Javier Jauregui gítarleikari flytja íslenska og spænska söngva 23. nóvember kl. 17. Hinar góðkunnu söngkonur Hallveig Rúnarsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir flytja blandaða söngdagskrá 18. janúar kl. 17 ásamt Pétri Nóa Stefánssyni organista. Torfhúsadrottningin, tónskáldið, kvikmyndagerðarkonan og söngkonan Kira Kira ásamt Strandvörðum sálarinnar kalla fram seiðmagnaða tóna á Valentínusardaginn 14. febrúar kl. 20. Lokatónleikar Vetrartóna verða 10. apríl kl. 20 þegar Stokkseyringurinn og sópransöngkonan Kristína G. Guðnadóttir og Ester Ólafsdóttir orgel- og píanóleikari flytja þekktar óratóríuaríur og hinn gullfallega lagaflokk Söngvar úr Ljóðaljóðum eftir Pál Ísólfsson.

Guðrún Jóhanna og Francisco Javier.
Ljósmynd: Aðsend.
Hallveig Rúnarsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir.
Ljósmynd: Aðsend.

Tónleikaröðin er liður í starfi Stokkseyrarkirkju að bjóða fólk velkomið til kirkju og njóta fallegs og uppbyggilegs tónlistarflutnings á myrkustu mánuðum ársins. Aðgangur er ókeypis á alla tónleika Vetrartóna en tónleikagestum stendur til boða að leggja til frjáls framlög sem renna beint til tónlistarfólksins. Tónleikaröðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Nýjar fréttir