-7.8 C
Selfoss

Ný Ölfusárbrú – lyftistöng öryggis og lífsgæða

Vinsælast

Enginn er eyland þegar kemur að pólitísku lífi og starfi. Við erum öll hluti af félagslegu lífsverki sem er öðru fremur myndað af tengslum, tengslum sem lúta að sístæðu samtali og samráði. Þannig, og bara þannig, þróast stór og umfangsmikil verkefni á löngum tíma sem breyta til muna lífsgæðum fólks, í umhverfi lýðræðis. Hugmyndir breytast á milli ára, kjörtímabila, meirihluta og minnihluta, ólíkra áherslna, stundum átaka, svo sátta og málamiðlana. Á endanum myndast fullmótað verkefni úr hugmynd – meitlað, sorfið og mótað af löngu samtali.

Ný Ölfusárbrú er á lokametrum fjármögnunar, engar líkur eru á öðru en að það klárist. Það samtal er einfaldlega hluti af því gangverki sem ég lýsti hér að ofan. Ný Ölfusárbrú er ekki heldur samgöngueyland. Hún er hluti af miklu stærra verkefni sem lýtur að uppbyggingu vegakerfis Suðurlands. Þannig er tvöföldun Hellisheiðar og nauðsynleg tilfærsla þjóðvegarins niður Kambana m.a. stór hluti af þessari áætlun, sem talar saman sem ein heild. Áætlun sem breytir til muna lífsgæðum og öryggi vegfarenda og er unnin af okkar færustu sérfræðingum. Áætlun sem hefur farið í gegnum samtal og samráð, margs konar lýðræðisbrölt sem nauðsynlegt er – það sem stundum er kallað leikreglur lýðræðisins. Og þær ber okkur að heiðra.

Ný Ölfusárbrú mun rísa, og hún á eftir að verða mikil lyftistöng lífsgæða. Uppbygging vegakerfisins á Suðurlandi er síðan mikilvægt hagsmunamál okkar allra sem stöndum að sveitarfélögunum á svæðinu. Á svæðinu er einstakur uppgangur sem kallar á kröftuga fjárfestingu hins opinbera – þar þurfa sveitarfélögin að ganga fram sem eitt í sinni kröfugerð. Þar hlýtur að vera ein af kröfunum að stórbæta leiðina um Þrengslin, mikill uppgangur atvinnulífs á svæðinu þar kallar á betri innviði.

Þannig, með sameiginlegri rödd, hámörkum við árangur svæðisins – íbúum okkar allra til heilla og meiri lífsgæða. Það er okkar meginhlutverk sem að sveitarfélögunum standa – að leiða fólk saman en ekki í sundur, til framtíðar.

Pétur G. Markan,
bæjarstjóri Hveragerðisbæjar

Nýjar fréttir