6.1 C
Selfoss

Níu keppendur unnu til 15 verðlauna á glímumóti um helgina

Vinsælast

Haustmót Glímusambands Íslands fór fram á Laugum í Sælingsdal laugardaginn 5. október. HSK átti samtals níu keppendur í barna-, unglinga- og fullorðinsflokkum og unnu þau til 15 verðlauna og voru þar af 5 gullverðlaun.

Marín Laufey keppti í opnum flokki kvenna og +75 kg kvenna og sigraði hún báða flokka á meðan Heiðrún Fjóla lenti á eftir henni í öðru sæti í báðum þessum flokkum. Gústaf keppti einnig í tveim flokkum og sigraði hann -84 kg flokk karla en gerði sér þriðja sætið að góðu í opnum flokki karla.

Jóhannes nældi sér í þrenn silfur en hann keppti í +74 kg unglingaflokki karla, +84 kg flokki karla og opnum flokki. Í hópnum var svo afmælisbarn en Óskar Freyr varð 17 ára á mótsdegi og hann náði sér í tvenn bronsverðlaun þar sem hann keppti í bæði +74 kg unglingaflokki og í +84 kg flokki karla.

Af öðrum keppendum er það að segja að Björgvin Guðni, bróðir Óskars Freys, lenti í öðru sæti í flokki 15 ára drengja. Tveir drengir náðu sér svo í gullverðlaun en Gísli Svavar í flokki 13 ára drengja og Torfi Guðjón í flokki 12 ára drengja lentu báðir í fyrsta sæti. Síðustu verðlaunin vann svo hún Kristín María en hún varð í þriðja sæti í 11 ára flokki stelpna. „Þetta var glæsilegur árangur hjá þeim á fyrsta móti vetrarins og má með sanni segja að glíman fari vel af stað hjá Skarphéðni,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.

Næsta mót er Iceland Open en þar er keppt í glímu og hryggspennu í unglinga- og fullorðinsflokkum. Mótið verður haldið helgina 26.-27. október í Vogum á Vatnsleysuströnd en hægt er að fylgjast með mótum og viðburðum Glímusambands Íslands á Facebook og Instagram. Fyrir alla áhugasama um glímu eru æfingar á nokkrum stöðum á Suðurlandi og hægt að nálgast allar upplýsingar á samfélagsmiðlum og á heimasíðu sambandsins glima.is.

Nýjar fréttir