Rebekka Kristinsdóttir er matgæðingur vikunnar.
Með stuttum fyrirvara þakka ég traustið sem mér hefur verið falið til þess að vera matgæðingur vikunnar. Uppskrift dagsins fékk ég hjá minni bestu naglakonu.
Sjávarréttasuða fyrir 4-6
- Heill laukur, fínt saxaður
- 6 hvítlauksrif, söxuð
- Kielbasa-pylsur frá SS, skornar í munnbita
- 700 g risarækjur og/eða annað sjávarfang með
- 500 g smælki
- 4 litlir maísstönglar, skornir til helminga
- 200 g smjör
- 1 dl kjúklingasoð
- 2 msk. hot sauce
- Safi úr heilli sítrónu
- 2 msk. Old bay-krydd (fæst í Hagkaup)
- 1/2 msk. paprikukrydd
- 1/2 msk. malaður svartur pipar
- 1/2 tsk. cayenne-pipar
Best er að byrja á að sjóða smælkið og maísinn strax.
Í pott skellum við smá olíu og byrjum á því að svissa lauk og hvítlauk þangað til að mjúkt og glært. Næst skal setja pulsurnar og kryddin út í pottinn og steikja. Smjörinu, hot sauce og soði bætt við og látið malla. Á meðan þetta mallar skal snöggsteikja risarækjurnar þangað til þær verða bleikar, passa að steikja ekki of lengi því annars verða þær of seigar.
Öllu er síðan blandað saman í stórt fat, smælkinu, maísnum, rækjunum og sósunni. Fínsöxuð seinselja og sítrónubátum dreift yfir.
Ég mæli eindregið með að njóta réttarins með nýbökuðu brauði frá GK bakarí til að borða sósuna með ásamt ísköldu glasi Chablis.