-9.7 C
Selfoss

Framúrskarandi árangur Selfyssinga í knattspyrnu

Vinsælast

Meistaraflokkur Selfoss karla í knattspyrnu endaði sumarið á mjög farsælan hátt. Þeir sigruðu 2. deild með miklum yfirburðum og unnu Fótbolti.net-bikarinn. Þeir spila því í Lengjudeildinni á næsta tímabili og eru með háleit markmið þar.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson formaður meistaraflokksráðs karla, Bjarni Jóhannsson þjálfari, Gunnar Borgþórsson yfirþjálfari yngri flokka og Alexander Clive leikmaður Selfoss ræddu árangurinn og markmið komandi tímabils.

Bjuggust ekki við svona góðum árangri

Í samtali við þá voru væntingar tímabilsins mismunandi. „Þegar við erum að fara inn í tímabilið þá erum við að gera rosalegar breytingar á leikmannahópnum þannig að það var alveg krefjandi verkefni og hópurinn er náttúrlega mjög ungur. Við erum með 22 uppalda leikmenn sem eru að koma inn í meistaraflokkshópinn núna af 27 og erum að spila yfir 60 prósent af þeim í hverjum einasta byrjunarleik. Margir þeirra voru að stíga sín fyrstu skref að taka ábyrgð í meistaraflokknum þannig að við vorum aðeins stressaðir yfir því hvort að menn myndu geta tekist á við verkefnið hvernig sem það væri. Til þess að ná þessum árangri þarftu að vera með stöðugleika í 22 umferðum og það var kannski það sem við höfðum mestar áhyggjur af, hvort að hópurinn væri í rauninni klár til þess að takast á við verkefnið í 22 umferðir. Við vissum alveg að getustigið væri til staðar og að leikmennirnir hefðu það sem þeir þurfa til þess að ná þessum árangri en svo er það bara annað þegar þú ert kominn inn í deildina,“ segir Guðjón.

Bjarni Jóhannsson talar um að hann hafi ekki búist við svona góðum árangri í byrjun tímabils. „Ekki kannski í upphafi þegar ég kom síðastliðið haust. Við byrjuðum svolítið á grunni og bjuggum til mjög gott þjálfarateymi í kringum liðið og sáum fljótlega að þetta var ungt og efnilegt lið og þess vegna var þetta kannski ekki það sem maður átti von á. Það voru ótrúlegar framfarir hjá mörgum ungum leikmönnum og mjög vönduð vinnubrögð í styrkingum á liðinu. Ég verð að viðurkenna það að maður átti kannski ekki von á þessu, ekki á þessum tímapunkti, en þegar við áttum gott start í mótinu þá sá maður að þetta var möguleiki.“

Guðjón talaði líka um hversu gott þjálfarateymið er. „Við fórum í það að ná í öflugt þjálfarateymi sem eru Bjarni Jó, sem er búinn að vinna allt sem hægt er að vinna, Heiðar Helguson sem er einn farsælasti atvinnumaður Íslands og landsliðsmaður og svo Inga Rafn sem er leikjahæsti leikmaður Selfoss og þekkir alveg hvað það er að spila undir merkjum félagsins og pressunni sem því fylgir.“

Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð.

Unnu deildina með yfirburðum

Strákarnir unnu 2. deildina með töluverðum yfirburðum og héldu forystunni allar 22 umferðirnar og tryggðu sigurinn þegar þrjár umferðir voru eftir. Alexander Clive, leikmaður Selfoss, bjóst ekki við þessum góða árangri. „Í rauninni bjóst ég ekki við því að þetta yrði átta stiga forskot og bara eiginlega auðvelt, bara algjör draumur,“ segir hann. Guðjón talar um að leikmenn fæddir 2003 og 2005 séu vanir sigrum. „2005 árgangurinn varð bikarmeistari í 3. flokki og komst í úrslitaleik í 2. flokki í bikarnum. Þannig að þeir hafa verið að vinna sín mót í yngri flokkum og svo er 2003 árgangurinn, þeir unnu til dæmis ReyCup og voru í öðru sæti á Íslandsmótinu, töpuðu þar á markamun í 4. flokki.“

Bjarni telur að tilkoma styrktarþjálfara hafi spilað stóran þátt í velgengni liðsins. „Það reyndist mjög farsæl ákvörðun að fá til liðs við okkur Rúnar Hjálmarsson. Persónulega hef ég alltaf verið mjög hrifinn af frjálsíþróttaþjálfurum sem styrktarþjálfara fyrir knattspyrnumenn og hann setti fram ótrúlega metnaðarfullt prógram sem að þessir ungu leikmenn voru svo sannarlega til í að taka þátt í. Þegar maður lítur til baka er þetta ein af ástæðunum fyrir því að þetta tókst svona vel og við eigum Rúnari að þakka fyrir það og vonandi verður hann áfram í þessum hópi næsta ár.“

Bjarni Jóhannsson þjálfari lyftir bikarnum.
Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð.

Tilfinningin að sigra mjög góð

Aðspurðir að því hvernig tilfinningin sé að eiga svona farsælt tímabil segja allir hana vera mjög góða. „Bara geggjuð, algjör draumur,“ segir Alexander. „Hún er mjög góð og ég hef nú unnið ýmislegt í gegnum tíðina og ég segi að tilfinningin er alltaf jafn geggjuð og líka hvernig andrúmsloftið var í kringum þetta. Ég held að mjög margir aðdáendur og margir í bæjarfélaginu hafi ekki átt von á þessu en svo kom þetta bara í fangið á okkur,“ tekur Bjarni fram. Guðjón segir það hafa verið stórkostlegt í alla staði og ótrúlega gaman að fylgjast með samheldninni og liðsandanum í liðinu. „Ef það hafa komið upp einhver vandamál þá hafa menn bara leyst þau, það eru allir lausnamiðaðir, þeir eru allir að róa í sömu átt og það hefur verið ótrúlega mikil gleði sem fylgir hópnum.“ Hann segir meistaraflokksráð hafa á síðustu tveimur árum innleitt gildi félagsins sem eru fagmennska, virðing og gleði. „Þeir hafa heldur betur tekið þau gildi inn í hjartað og sinna öllu með þessi gildi að leiðarljósi og hafa verið núna mjög markvisst í því að sýna líka félagsmennina sem þeir eru. Þeir taka dómgæslurnar á mótunum með stakri prýði, eru búnir að vera að grilla hamborgara á bæjarhátíðum á Kótelettunni og á Sumar á Selfossi til þess að tengjast stuðningsmönnum betur og hafa verið að taka klefann hjá sér í gegn sjálfir. Þeir hafa verið að gera svo mikið til þess að lyfta félaginu. Viljinn er svo mikill að þeir sjálfir eru búnir að leggja línuna og það er rosalega stórt að vera að vinna með þannig leikmönnum sem eru tilbúnir að leggja hjarta og sál í að umhverfið verði gott. Það hefur vaxið með hverjum leiknum og það er búið að veita manni þessa ánægju að fylgjast með allan þennan tíma og ég held að þetta sé hvergi nærri búið, ég held að þeir muni bara halda áfram á þessari vegferð.“

Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð.

Stuðningsmenn tólfti maðurinn á vellinum

Guðjón segir stuðninginn frá áhorfendum hafa aukist með tímabilinu. „Það er rosalega mikill munur á áhorfendum og stuðningsmönnum. Það sem að hefur gerst eftir að fór að líða á tímabilið er að stuðningurinn fór að verða meiri, það var sambærilegur fjöldi af fólki sem mætti á völlinn en fleiri áhorfendur urðu að stuðningsmönnum sem náði síðan algerum hápunkti á Laugardalsvelli þar sem stuðningurinn var algjörlega til fyrirmyndar. Við Selfyssingar höfum alveg sýnt það að þegar við þurfum á stuðningnum að halda þá mætir fólk og lætur í sér heyra og hvetur liðin sín áfram til árangurs. Stuðningsmennirnir eru tólfti maðurinn sem hjálpar mönnum á lokametrunum að koma þessu yfir línuna þannig að það er búið að vera stórkostlegt að fylgjast með því líka og ég er bara ekki í nokkrum vafa um að þessir stuðningsmenn munu láta sjá sig í Lengjudeildinni á næsta ári.“

Alexander tekur fram að stemningin frá áhorfendum hafi verið geggjuð á Laugardalsvelli. „Það var gæsahúðamoment, að labba inn á völlinn og heyra þjóðsönginn. Það voru fáránlega margir sem mættu. Ég var ekki að búast við svona mörgum.“

Stuðningsmenn skipta gríðarlega miklu máli.
Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð.

Árangurinn lyfti fótboltanum hærra á Selfossi

Guðjón telur að árangur liðsins muni hafa víðtæk og jákvæð áhrif á fótbolta á Selfossi, bæði á almennan áhuga hjá hinum almenna stuðningsmanni og á öll börn í sveitarfélaginu. „Maður sá það alveg á vellinum þegar við spiluðum á móti Hugin/Hetti í grenjandi rigningu og fengum svo bikarinn afhentan í lokaleiknum á móti Ægi hvernig stuðningsmennirnir og iðkendurnir horfðu á fyrirmyndirnar sínar vera að vinna bikar. Síðan þegar við mætum á Laugardalsvöllinn þar sem þú ert með nánast 600 manns í stúkunni og sjáum gleðina í andlitum allra, barnanna og foreldranna, að horfa á leikmennina kljást í þessu verkefni og þegar ávinningurinn kemur, sem er bikarinn, hvað allir samglöddust og mikil gleði og hamingja í stúkunni. Þetta mun hafa mjög jákvæð áhrif og að öllum líkindum lyfta fótboltanum hærra.

Fótboltastarfið gott á Selfossi

Fótboltastarfið á Selfossi er nú þegar mjög gott. Iðkendur eru um 730 á aldrinum 3-19 ára ásamt meistaraflokki karla og kvenna. Þjálfarar yngri flokka eru 28 og eru flokkar í öllum árgöngum frá 2005-2020. Fjölmargir þjálfarar koma að þjálfun þessara leikmanna. Helst ber að nefna Tomasz Luba, Sigurð Reyni og Guðmund Sigmarsson sem hafa komið að þjálfun allra þessara leikmanna síðustu árin.

„Markviss vinna er lögð í það að allir njóti sín í starfinu, ekki bara þeir krakkar sem skara fram úr á vellinum eða ætla sér að ná langt heldur allir. Þeir sem vilja vera í markvissri hreyfingu, vera í fótbolta af félagslegum ástæðum ásamt því að vera með æfingar fyrir börn og unglinga með þroskaraskanir og svo má lengi telja,“ segir Gunnar Borgþórsson, yfirþjálfari yngri flokka.

„Knattspyrnudeildin er með knattspyrnuakademíu inni í stundaskrá krakkanna sem eru í FSU. Flestir, ef ekki allir, á framhaldsskólaaldri sem eru í meistaraflokkum félagsins stunda æfingar við Akademíuna og fá því tvær aukaæfingar í hverri viku samhliða sínu námi á skólatíma. Þetta hjálpar klárlega við það að efla faglegt starf hjá deildinni og styður við framfarir leikmanna í yngriflokkastarfinu,“ segir Gunnar einnig.

7. flokkur karla. Selfoss hélt vinamót á Selfoss velli árið 2011. Elfar Ísak Halldórsson, Sigurður
B. Ásberg Flemmingsson, Tryggvi Sigurberg Traustason, Aron Einarsson, Karl Ágúst Einarsson, Einar Ísak Friðbertsson, Hlynur Héðinsson og Aron Fannar Birgisson. Í baksýn má sjá Gunnar
Borgþórsson þjálfara liðsins.
Mynd: UMFS.
6. flokkur karla frá Selfossi í Vestmannaeyjum árið 2013. Sigurfinnur Garðarsson og Tyrfingur
Guðmundsson fararstjórar ásamt Sigmari Karlssyni þjálfara. Aron Fannar Birgisson, Reynir
Freyr Sveinsson, Garðar Örn Sigurfinnsson, Aron Darri Auðunsson, Breki Hrafn Valdimarsson,
Guðmundur Tyrfingsson, Ísak Gústafsson og Jón Vignir Pétursson.
Mynd: UMFS.

Baklandið lykillinn að velgengninni

Guðjón nefnir að það mikilvægasta í þessu öllu sé baklandið. Baklandið samanstendur af stjórn, meistaraflokksráði, sjálfboðaliðum og styrktaraðilum. „Styrktaraðilarnir tryggja fjárhagslegan grundvöll undir starfsemina og án þeirra væri ekki hægt að reka meistaraflokkana. Hvað umgjörðina í kringum liðið varðar höfum við lagt ríka áherslu á að virkja meistaraflokksráðið sem samanstendur af sex aðilum. Það eru Njörður Steinarsson, Arilíus Marteinsson, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Ingimar Helgi Finnsson, Tómas Þóroddsson og svo ég sjálfur. Þessir einstaklingar hafa í rauninni lagt meginþungann á það að halda umgjörð liðsins í lagi. Allt sem snýr að liðinu sjálfu, allt frá því að skipuleggja æfingaferðir, flytja húsgögn milli íbúða, hópefli fyrir liðið eða hvað það er. Svo eru það sjálfboðaliðarnir sem eru mikilvægastir. Þeir tryggja það að heimaleikirnir fari fram, eru stuðningurinn við félagið og eru í raun hjartað í félaginu. Þessir aðilar eru algjörlega ómetanlegir í starfinu og þegar þetta allt kemur saman, stjórnin, meistaraflokksráðið og sjálfboðaliðarnir, og mynda þessa einingu þá skapast umhverfi fyrir þjálfara og leikmenn til þess að ná árangri. Baklandið þarf að vera í lagi til þess að árangurinn komi og það er það sem við erum hvað þakklátust fyrir núna í stjórninni, hversu öflugt starfið var í kringum meistaraflokkinn og það held ég að sé lykilatriði að þessum árangri.“

EHJ

Nýjar fréttir