Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps í gær, þann 2. október, úthlutaði sveitarstjórn lóðum í fyrsta áfanga nýrrar byggðar vestan við Borg. Gatnagerð á svæðinu er að mestu yfirstaðin og lokafrágangur við götur og lýsingu í fullum gangi þessa dagana.
„Virkilega gleðilegt er að segja frá því að 64 umsóknir bárust um sex lóðir og bindum við því vonir við að lóðarhafar hefji framkvæmdir á sínum lóðum með haustinu,“ segir í tilkynningu frá sveitarstjórninni.
Líkur eru á að nýja byggðin verði mikil lyftistöng fyrir þéttbýlið á Borg og sveitarfélagið allt.
„Viðræður eru hafnar vegna byggingarreits á Miðsvæði og verður gaman að segja nánar frá framvindu þeirra þegar fram í sækir,“ segir einnig í tilkynningunni.