Það kviknaði mikil gleði meðal íbúa Sólheima þegar vaskir starfsmenn verkefnisins Römpum um Ísland fóru að sjást í hádegismat í mötuneyti Sólheima á ný núna á haustdögunum. Um svipað leyti í fyrra voru þeir líka fastir gestir á Sólheimum og settu niður sextán nýja og mikilvæga rampa. Í ár var sú tala rúmlega tvöfölduð og enda þeir á að færa Sólheimum 33 rampa alls í byggðarhverfinu. Fókusinn var að þessu sinni á bættu aðgengi að þjónustuíbúðum í Undirhlíð en einnig að mikilvægum þjónustubyggingum.
„Starfsfólk og íbúar Sólheima eru einstaklega þakklát fyrir samstarfið. Jarðvegssig og aldur bygginga á Sólheimum hefur gert það að verkum að aðgengi á Sólheimum hefur verið ábótavant eins og annars staðar. Römpum upp Ísland hefur leyst þessa skekkju að miklu leyti með stakri snilld og skapandi lausnum. Við óskum þeim velfarnaðar í áframhaldandi verkefni sínu að bættu umhverfi og betra aðgengi á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Sólheimum.