Sveitarfélagið Árborg hefur tekið saman upplýsingar fyrir íbúa vegna tímabundins álags á útsvarsprósentu.
Hér að neðan má finna helstu spurningar (SP) og svör (SV) vegna álagsins.
SP: Hefur Árborg heimild til að taka auka útsvar af íbúum?
SV: Já.
Heimild er í 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og 84. gr. sveitarstjórnarlaga að leggja sérstakt álag á útsvör ársins, en í sveitarstjórnarlögunum segir að ráðherra geti, að fenginni rökstuddri tillögu eftirlitsnefndar, heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn að leggja álög á útsvör eða fasteignaskatt, sem nemi allt að 25% umfram það hámark sem ákveðið er skv. lögum.
Eftirlitsnefndin lagði til við sveitarfélagið að gera samkomulag við innviðaráðherra um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit á grundvelli sveitarstjórnarlaga og álagið er einn liður í aðgerðaráætlun byggðri á því samkomulagi.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sagði í áliti sínu til innviðaráðuneytisins að 10% álag á útsvar væri algjört lágmark að mati nefndarinnar og væri nauðsynlegt að fallast á aukið álag á útsvar. Innviðaráðuneytið heimilaði aukið álag á útsvar.
Gögn má nálgast á 29. fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 29. nóvember 2023 en á þeim fundi var tillaga um útsvarsprósentu ársins 2024 samþykkt.
Aukið álag er aðeins hugsað til í mesta lagi tveggja ára.
SP: Hver eru rökin fyrir álaginu?
SV: Fjárhagur sveitarfélagsins er mjög slæmur, með háar skuldir og aukinn rekstrarkostnað síðustu ár líkt og sjá má á myndunum hér að neðan. Álagið er einn þáttur í því að sveitarfélagið geti mætt fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
Það er hagræðingarkrafa á alla málaflokka og hefur verið unnið að því frá árinu 2022 að rýna reksturinn til að tryggja aukna framlegð svo sveitarfélagið geti staðið undir skuldbindingum sínum og þjónustu við íbúa. Bæjarstjórn hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir eins og aukið álag á útsvar og uppsagnir á starfsfólki, einnig hefur verið farið í sölu eigna sveitarfélagsins.
SP: Er um að ræða aukið álag á heimili eða einstaklinga?
SV: Álagið er reiknað ofan á útsvar allra útsvarsgreiðenda með lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg.
SP: Á 18 ára barnið mitt að greiða þetta aukna álag?
SV: Já, 18 ára einstaklingar sem hafa verið í launuðu starfi á árinu greiða álagið ofan á það útsvar sem þeir hafa greitt. Ef um sumarvinnu var að ræða greiða þeir álag á útsvarið þá mánuði sem þeir voru með laun.
SP: Hefur Eftirlitsnefndin eitthvað vald yfir sveitarfélaginu?
SV: Það er hlutverk Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga og að þau séu rekstrarhæf. Nefndin sendi sveitarfélaginu bréf í upphafi árs 2023 þar sem farið var yfir útkomuspá sveitarfélagsins fyrir árið 2022 og fjárhagsáætlanir næstu ára.
Nefndin fundaði með sveitarfélaginu í upphafi árs 2023 og lýsti yfir áhyggjum af stöðu mála. Nefndin hafði þá fylgst með fjárhagsstöðu sveitarfélagsins um nokkurt skeið og fundaði m.a. með fulltrúum sveitarfélagsins til að ræða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins á 1. ársfjórðungi ársins 2022. Á fundinum í janúar 2023 kom fram að fjárhagsstaða sveitarfélagsins væri mjög erfið og leitað væri allra leiða til að hagræða í rekstri og draga saman í fjárfestingum.
Eftirlitsnefndin lagði til við sveitarfélagið að gera samkomulag við innviðaráðherra um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit á grundvelli sveitarstjórnarlaga.
Samkomulag Árborgar og innviðaráðherra var undirritað í mars 2023 með það að markmiði að stuðla að markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins til að treysta fjárhagslega sjálfbærni svo fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð.
SP: Þarf að borga allt álagið í einni greiðslu?
SV: Eftirstöðvum álagðra gjalda er jafnað á sjö gjalddaga, 1. júní – 1. desember. Þó er útvarpsgjaldi jafnað á þrjá gjalddaga, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst. Gjalddagaskipting miðast þó við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 5.000 kr. á hverjum gjalddaga. Við skil á skattframtali 2024 og síðar getur framteljandi þó óskað eftir því að gera upp alla álagninguna þann 1. júní, í stað þess að dreifa greiðslum á 3 – 7 gjalddaga. (Tekið af skattur.is)
SP: Ef ég hef ekki fullnýtt persónuafslátt á árinu 2024?
SV: Ef persónuafsláttur gengur ekki allur til lækkunar tekjuskatts nýtist það sem umfram er til greiðslu álags á útsvar.