-1.1 C
Selfoss

Ákall íbúa í Grænumörk 1 á Selfossi

Vinsælast

Við íbúar í Félagslegum leiguíbúðum Árborgar fyrir 67 ára og eldri að Grænumörk 1 á Selfossi viljum með þessu opna bréfi til sveitarfélagsins fara fram á að húsnæðið verði fært í mannsæmandi horf. Við höfum í gegnum árin verið í þrotlausri baráttu fyrir ýmsum úrbótum en upplifum að umkvartanir okkar séu ekki virtar viðlits. Húsnæðið sem við búum í er engan veginn viðunandi og Árborg er það fullljóst.

Svo nokkur atriði séu tilgreind þá er hitaveitan mjög óstöðug. Rennsli inn í þessar átta íbúðir er misjafnt og það bankar reglulega í sumum ofnum og margir ofnar eru kaldir. Verst er þó að ekki er hægt að treysta á hitastillingar á baðvatni. Það er nokkuð sem ætti ekki að líðast í íbúðum þar sem einhverjir íbúar hafa skerta getu og öryggismál ættu alltaf að vera í topplagi. Vandræðin með heitavatnsrennslið gerir það einnig að verkum að íbúar eiga erfitt með að sætta sig við það fyrirkomulag sem ríkir um greiðslu á hitaveitu. Íbúðirnar hafa ekki sér mæli heldur er hitaveitureikningur fyrir allt húsið sameiginlegur og notkun áætluð milli íbúða óháð eiginlegri notkun hvers og eins íbúa. Inni í þeirri tölu er líka hluti af hitareikningi fyrir sameign.

Annað stórt atriði er frárennsli frá húsinu sem er ekki í lagi. Minnst einn brunnur er ónýtur svo stíflur í vaski eða klósetti eru viðloðandi vandamál. Stundum stendur gusan upp úr eldhúsvaski í einni íbúðinni og þá er brugðist við og stífluþjónusta kemur en vandinn er samt óleystur.

Þak hússins lak í mörg ár svo pollar voru á gólfum í sameign. Nú hefur sem betur fer verið ráðist í þær lagfæringar sem er hróssins vert nema hvað að eftir viðgerð gaus upp megn og viðvarandi fúkkalykt sem er óásættanlegt. Ekki hafa verið gerð nein myglupróf í húsinu þrátt fyrir erindi okkar um slíkt. Loftræsting hússins hefur ekki verið þrifin í mörg ár og var ekki gert í kjölfarið á viðgerðum á þaki sem hefði þó þótt eðlilegt. Sú var tíðin að það var húsvörður á vegum Árborgar en langt er síðan sú staða hvarf.

Nokkrar úrbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu undanfarin ár en það er stoppað í miðjum læk með þær framkvæmdir. Baðherbergi eru í sumum íbúðum enn algjörlega óviðunandi. Við getum vel séð að sparnaður hjá sveitarfélaginu og undirmönnum sé þáttur í þessu en útskýrir samt engan veginn langvarandi viðhaldsleysi á húsnæðinu til margra ára.

Það er lögð rík áhersla á að eldri borgarar búi sem allra lengst heima og þiggi þjónustu til að geta búið eitt. Það er þess vegna enn brýnna en ella að aðstæður á heimilum fólksins séu viðunandi og öruggar. Þann 12. júlí fengum við fund með bæjarstjóranum sem okkar lokaúrræði en það breytti engu. Erindum okkar er yfirleitt vel tekið en úrbætur koma ekki. Við virðumst ekki hafa rödd. Höfum við minni rétt en aðrir vegna þess að við búum í félagslegum íbúðum?

Okkar helsta ósk með þessu bréfi er að Árborg breyti stefnu sinni og geri úrbætur á húsinu og bæti samskipti sín og upplýsingaflæði til íbúa.

Guðný

Birna

Sigurjóna

Ásdís

Jóhanna

Nýjar fréttir