-4.5 C
Selfoss

Skírðu barnið sitt í Reykjaréttum

Vinsælast

Bjarni Rúnarsson og Harpa Rut Sigurgeirsdóttir eru kúabændur á Reykjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þau eignuðust sína fyrstu dóttur í lok júní og ákváðu að skíra hana í Reykjaréttum sem fram fóru á dögunum. „Það er svo mikið að gera hjá öllum á sumrin að það dróst að skíra dömuna. Það er alltaf mikill hátíðardagur í Reykjaréttum hérna heima, fullt af fólki sem kemur í réttarsúpu og gleðst saman. Svo við ákváðum að slá þessu bara saman,“ segir Bjarni Rúnarsson, faðir stúlkunnar. Þegar hugmyndin kom til var gulri viðvörun spáð á skírnardeginum og útlit fyrir að ekki næðist að skíra utandyra. „Þegar við svo vöknuðum á laugardagsmorguninn var veðrið alveg prýðilegt þannig að við smöluðum gestunum út í réttir og skírðum hana þar,“ segir Bjarni.

Gekk skírnin mjög vel og fólk sem kom til þess að taka þátt í réttunum tók vel í hana. „Þó nokkrir stöldruðu við hjá okkur í athöfninni sem var bara mjög skemmtilegt,“ tekur Bjarni fram. Bjarni og Harpa eru ekki með fé á Reykjum svo þau höfðu engum beinum skyldum að gegna í Reykjaréttum og truflaði athöfnin því engin störf hjá þeim.

Presturinn sem skírði stúlkuna, Óskar Hafsteinn, hafði aldrei skírt við þessar aðstæður áður og fannst honum þetta góð hugmynd. „Hann sagðist aldrei hafa klofað yfir jafn margar girðingar á leið til skírnar áður, en hann gekk frá bænum út í réttirnar sem standa rétt við bæinn,“ segir Bjarni að lokum. Skírnin heppnaðist því mjög vel og fékk stúlkan nafnið Úlfhildur Bára.

Stúlkan var skírð Úlfhildur Bára. Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir