-8.9 C
Selfoss

Skífuvinafjélagið stofnað í Hveragerði

Vinsælast

Um síðustu helgi var fyrsta opinbera ferð Skífuvinafjélagzins farin í Hveragerði. Mæting var mjög góð. Undanfarin ár hefur gönguleiðin upp að Skífu í Kömbum verið mjög vinsæl.

Tilgangur þessa félags er að Hvergerðingar hreyfi sig í auknum mæli í þeirri náttúru sem um þá lýkur. Einnig er tilgangur félagsins að Hvergerðingar hópist saman í það að vera saman, hvort sem um ræðir göngur, fjallgöngur, hópíþróttir, kórastarf eða bara hvað sem er.

Einstaklingar í félaginu funduðu um það hver ætti að vera verndari Skífuvinafjélagzins. Var það einróma ákvörðun þeirra að útnefna Guðjónu Björk Sigurðardóttur. Voru því útbúnir bolir henni til heiðurs sem og dagbók sem hefur verið staðsett við Skífuna. Guðjóna er framkvæmdastjóri Hamars og hefur lyft félaginu á hærri stall með flottri og jákvæðri umfjöllun á samfélagsmiðlum Hamars.

„Við í Hveragerði dásömum okkur af því að vera heilsubær/samfélag og því töldum við vinirnir í Skífuvinafjélaginu það rétt að ýta úr vör þessu átaki okkar. Átaki til heilsueflingar, heilsuvitrunar og bara almennt að fá okkar dásamlega samfélag saman í það að vera saman og að átta okkur á því hversu frábær við erum,“ segir Hallgrímur Brynjólfsson, meðlimur félagsins, á íbúasíðu Hvergerðinga á Facebook.

Félagið hefur sett upp gestabók þar sem fólk er hvatt til þess að skrá nafn sitt, sem og dagsetningu þegar það kemur upp að skífunni.

Verið er að setja upp Facebook-hóp sem mun heita Skífuvinafjélagið og eru öll hvött til þess að koma þar inn. Hugmyndin er að þegar einhvern langar til þess að fara upp að Skífu eða bara almennt í göngutúr og vantar félagsskap að þá sé það skrifað inn á síðuna og fólk getur komið með í göngutúrinn.

Guðjóna Björk, verndari Skífuvinafjélagsins.
Ljósmynd: Ágústa Þórhildur Sigurðardóttir.

Nýjar fréttir