1.1 C
Selfoss

Úr hestaferðum á veðreiðar

Vinsælast

Á undanförnum 16 árum hefur hópur 17 kvenna frá Suðurlandi verið saman í hestahópi sem kallar sig Hefðarkonur. Þær fara saman í útreiðartúra og hittast oft við önnur tilefni. Þær koma alls staðar að, úr Hveragerði, Ölfusi, Flóanum og Hellu svo eitthvað sé nefnt. Þegar hópurinn varð til upphaflega var engin sem þekkti allar í hópnum og var einungis farið í eina hestaferð á ári. Með árunum hefur hins vegar fallegur vinskapur myndast og hittingarnir orðnir mun fleiri. Nú á dögunum ferðuðust ellefu úr hópnum saman til Ascot í Englandi þar sem farið var á veðreiðar.

Algjör skvísuferð

Í samtali við Guðbjörgu Rósu, eina af meðlimum hópsins, segir hún að þær hafi lengi ætlað sér að fara í einhverja ferð saman. Guðbjörg segist vera Bretlands- og kóngafólkssjúk svo hún fór að tala um þessa ferð við hópinn og voru allar sammála um að hún væri góð hugmynd.

Ferðin var algjör skvísuferð samkvæmt Guðbjörgu. „Við vorum bara pæjur allan tímann. Við pöntuðum okkur gistingu í Eton, það er við hliðina á Windsor, þú labbar bara á milli. Við ákváðum að vera í íbúðum þannig að við gætum haft okkur til saman og borðað morgunmat í náttfötunum saman.“ Þó að veðreiðarnar hafi verið aðaltilgangur ferðarinnar var líka farið í heimsókn í Windsor-kastalann og í svokallað „afternoon tea“.

Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir, Margrét Stefánsdóttir og Erna Ingvarsdóttir.
Ljósmynd: Guðbjörg Rósa Björnsdóttir.
Guðbjörg Rósa, Anna Björg og Jóhanna Kristín.
Ljósmynd: Guðbjörg Rósa Björnsdóttir.

Pantaði sér sjö hatta

Fyrir ferðina var hópurinn búinn að hittast saman með kjóla og hatta og skipuleggja í hverju átti að vera á veðreiðunum. „Sumar eru svo klikkaðar, ég var til dæmis búin að panta mér sjö hatta,“ segir Guðbjörg hlæjandi. Hún segir að það sé ekki skylda að klæða sig upp þarna á þessum árstíma en þær hafi samt ákveðið að gera það. „Við ákváðum að gera þetta flott og við pöntuðum okkur það sem þeir kalla „box“, það eru herbergi með svölum. Þannig að við vorum með einkaherbergi og einkasvalir á veðreiðunum. Inni í því var hlaðborð og þjónn sem blandaði alla drykki, það var sjúklega næs.“ Ásamt veðreiðunum var líka matarhátíð þar sem meðal annars voru kynntar alls konar vörur og vín úr héraði. Einnig voru matarvagnar og tónleikar fyrir utan á Ascot-svæðinu.

Horft á svæðið úr „boxinu“.
Ljósmynd: Guðbjörg Rósa Björnsdóttir.

Minnir á giftingadaginn

Allar í hópnum veðjuðu á hesta í veðreiðunum. „Þetta voru sjö hlaup og það kom maður inn til okkar, við köllum hann „betman“, til að segja okkur hvernig þetta virkar,“ segir Guðbjörg. Aðspurð að því hvernig þær völdu sér hesta til þess að veðja á voru svörin ekki flókin. „Bara það sem mér leist best á, ef hann hét flottu nafni eða eitthvað.“ Allar nema tvær náðu allavega einum sigri, og sumar unnu þrisvar eða fjórum sinnum. Guðbjörg segir það mikla stemningu og upplifun að horfa á svona hlaup. „Ein sagði þegar við vorum að græja okkur að þetta hafi minnt hana á þegar hún var að gifta sig. Þetta er bara svipuð upplifun. Við erum svo lengi að ákveða dressið, mála okkur og máta, vinkonur saman. Þetta var alveg þannig.“ Þó svo að klæðnaðurinn hafi verið ákveðinn áður en ferðin var farin var mikið af litlum búðum á svæðinu sem verslað var í. „Ég notaði ekkert hattana sem ég var búin að kaupa, ég keypti mér bara nýjan,“ segir Guðbjörg og hlær.

Hún segir upplifunina það frábæra að þær ætla allar aftur. „Við ætlum að taka karlana með næst. Við vorum að hugsa um að bíða í tvö ár en við ætlum að fara aftur á næsta ári. Við erum strax byrjaðar að pæla í hvaða dressum við eigum að vera þá,“ segir hún hlæjandi. Að lokum mælir hún með að fólk geri sér ferð til Bretlands á veðreiðar og upplifi stemninguna.

Ljósmynd: Guðbjörg Rósa Björnsdóttir.

Nýjar fréttir