-4.1 C
Selfoss

Mozzarella snittur

Vinsælast

Matthea Sigurðardóttir er matgæðingur vikunnar.

Ég þakka Elvu, minni kæru samviskunorn, fyrir áskorunina og gleðst yfir tækifærum sem þessum til að deila matargleði.

Að þessu sinni er um að ræða uppskrift að forrétti og eftirrétti. Aðalréttur er algjört aukaatriði þegar þessar kræsingar eru á boðstólum. Við Siggi, sonur minn, erum sólgin í góðar snittur og eigum oft notalegar stundir við að raða saman kræsingum á mjúkt snittubrauð með stökkri skorpu. Þessar eru í algjöru uppáhaldi hjá okkur.

Mozzarella snittur (fyrir 2-3)

Eitt nýtt og ilmandi snittubrauð

2 mozzarellakúlur

5 íslenskir tómatar

Ríflegur skammtur af ferskri basilíku

Sítrónusafi

Salt og pipar

Skerið snittubrauðið, mozzarellakúlurnar og tómatana í hæfilega þunnar sneiðar. Bleytið upp í brauðinu með sítrónusafa. Raðið mozzarella, tómötum og basiliku á brauðið og saltið og piprið eftir smekk. Við Siggi erum svo ekki rög við að demba öðrum skammti af sítrónusafa yfir allt áður en við gleypum þetta í okkur.

Frönsk súkkulaðikaka

Botn:

2 dl sykur

200 gr smjör

200 gr suðusúkkulaði

1 dl hveiti

4 stk egg

Aðferð: Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið. Setjið í vel smurt form (mjög gott að nota silikonform). Bakið við 170°c í 25 mín.

Súkkulaðibráð:

150 gr suðusúkkulaði

70 gr smjör

2 msk. síróp

Aðferð: Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna. Gott að bera fram með jarðarberjum og rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Ég skora á Viktor Hólm Jónmundsson vin minn, sem einnig er þekktur undir nafninu káti kokkurinn, að koma með eitthvað gott fyrir ykkur í næstu viku. Þegar hann setur á sig svuntuna og mylur kryddagnir milli fingranna í rísandi svani gerast ótrúlegir hlutir.

Nýjar fréttir