8.4 C
Selfoss

Krambúðin býður betri kjör á nauðsynjavörum fyrir heimafólk

Vinsælast

Íbúum á Laugarvatni, Flúðum, Hólmavík og Mývatni bjóðast nú betri kjör á 270 vörum í Krambúðinni í þeirra heimabyggð með nýrri lausn í Samkaupa-appinu. Innleidd hefur verið ný viðbót við Samkaupa-appið, en með því að velja „þína verslun“ í appinu bjóðast betri kjör á helstu nauðsynjavörum í þessum tilteknu Krambúðum á landsbyggðinni.

Afurð samtals við nærsamfélög

Lausnin var innleidd til prófunar í Krambúðinni í Búðardal í maí á þessu ári og er nú aðgengileg fyrir allar Krambúðir sem staðsettar eru á landsbyggðinni. Þessi auka afsláttur í formi inneignar er hluti af aðgerðum til að koma til móts við íbúa í heimabyggð og er afrakstur samtals og samvinnu við viðskiptavini um hvernig hægt er að mæta óskum um lægra vöruverð.

„Lausnin hefur reynst vel í Dalabyggð síðustu mánuði og hafa íbúar í auknum mæli valið að kaupa nauðsynjavörur í heimabyggð á þessum sérkjörum. Við höfum lengi leitast við að eiga opið samtal við íbúa á landsbyggðinni og í þeim nærsamfélögum sem við störfum í um rekstrarumhverfi í smærri bæjarfélögum og erum stolt af þessari lendingu,” segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúðarinnar.

Afsláttur í formi inneignar í verslunum Samkaupa

Með því að skanna appið þegar greitt er fyrir vörurnar í búðinni fá viðskiptavinir afsláttinn greiddan í formi inneignar sem hægt er að nota í öllum verslunum Samkaupa. Vörurnar eru sérstaklega merktar í búðinni með grænum hringlaga miða utan um hillumiðann.

„Verslanarekstur á landsbyggðinni er erfiðari en í fjölmennari byggðum og það hefur sett okkur ákveðinn ramma, því hverja verslun verður að reka á eigin forsendum. En með því að nýta vildarkerfið okkar getum við komið til móts við íbúa í nágrenni Krambúða á landsbyggðinni með þessum hætti. Við höfum verið með appið í þróun í nokkurn tíma og sambærileg fyrirbæri hafa gefið góða raun á Norðurlöndunum. Með því að skanna appið í hverri innkaupaferð safna viðskiptavinir inneign sem hægt er að nota við næstu innkaup. Þannig tryggjum við gagnkvæma hagsmuni verslunar og samfélags og getum viðhaldið rekstri í minni byggðarlögum,” segir Kristín.

Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúðarinnar.
Ljósmynd: Samkaup.
Hægt er að nota inneignina úr appinu á vörum með grænum miðum. Ljósmynd: Samkaup.

Nýjar fréttir