10 C
Selfoss

Leikfélag Selfoss blæs lífi í leikhúsið á ný

Vinsælast

Leikfélag Selfoss hefur haft heldur hægt um sig síðustu tvö ár vegna framkvæmda við Litla leikhúsið við Sigtún og af öryggisástæðum hefur félagið ekki getað haldið stóra viðburði eða sett upp leiksýningar. Leikfélagið hefur þó haldið minni viðburði og sinnt ýmsu innra starfi þennan tíma, t.d. með allsherjartiltekt og endurskipulagningu innanhúss. Nú horfir þó til betri vegar þar sem aðgengi er orðið betra og ekkert því til fyrirstöðu að stíga fastar á fjöl og blása lífi í húsið.

Leikfélagið mun halda haustfund í Litla leikhúsinu við Sigtún 1 miðvikudaginn 11. september kl. 20:00 þar sem dagskrá vetrarins verður kynnt. Þar verður farið yfir þær sýningar og viðburði sem framundan eru auk þess að fara lítillega yfir þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað og hvaða framkvæmdir eru framundan. Starf félagsins er raunar þegar komið á fullt og voru haldin átta leikhúsnámskeið fyrir börn í leikhúsinu í sumar, en námskeiðin hafa verið fastur liður í starfi félagsins í um 30 ár og eru alltaf jafn vinsæl. Það verður svo sannarlega nóg um að vera í vetur hjá félaginu og hefst vetrarstarfið strax um miðjan september af krafti.

Haustfundurinn er öllum opinn og Leikfélag Selfoss vonar að fólk fjölmenni til að kynna sér dagskrá félagsins, hvort sem það hefur áhuga á að starfa með félaginu á sviði eða bakvið tjöldin eða bara til að kynna sér þær áhugaverðu sýningar og viðburði sem verða í boði í vetur. Það er því um að gera að mæta á haustfundinn 11. september kl. 20:00 í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Stjórn Leikfélags Selfoss

Nýjar fréttir