3.9 C
Selfoss

Margt framundan hjá Glímuráði HSK

Vinsælast

Haustfundur Glímuráðs HSK var haldinn í Selinu á Selfossi sl. þriðjudag. Það var stjórn ráðsins sem boðaði til fundarins og voru fulltrúar félaga í ráðinu hvattir til að mæta og þá var glímuáhugafólk velkomið á fundinn.

Stjórn ráðsins lagði fram drög mótaskrá Glímuráðs í vetur og ákveðið var að halda Fjórðungsglímu á Hvolsvelli í nóvember, Grunnskólamót HSK í Reykholti í febrúar og héraðsglímu á Laugalandi í mars.

Jana Lind Ellertsdóttir framkvæmdastjóri Glímusambandsins og varaformaður Glímuráðs kynnti mótahald Glímusambandsins í vetur og fleiri verkefni sem eru framundan. Fram kom að næstu viðburðir Glímusambandsins eru haustmót 5. október á Laugum í Sælingsdal, Iceland Open 26.-27. október í Vogum og æfingabúðir 15.-17. nóvember í Reykholti í Biskupstungum.

Fleiri mál voru rædd á fundinum og þar má nefna farandgripi HSK í glímu og nauðsyn þess að setja reglur um hvernig geyma eigi Skarphéðinsskjöldinn og Bergþóruskjöldinn milli móta. Á fundinum kom fram að nýtt félag á Selfossi sé að hefja starfsemi en það mun sækja um aðild að HSK á næstu dögum. Fulltrúi félagsins mætti á fundinn og nefndi að félagið stefndi að því að bjóða upp á glímuæfingar fyrir börn og fullorðna þegar fram líða stundir.

Nýjar fréttir