-8.2 C
Selfoss

Árborg vekur athygli á auknu ofbeldi barna

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg hefur sent frá sér tilkynningu til foreldra og forráðamanna vegna nýlegra alvarlegra atvika þar sem börn hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra barna. Fjölskyldusvið Árborgar lýsir yfir miklum áhyggjum af auknu ofbeldi meðal barna á svæðinu og hvetur foreldra til að ræða við börn sín um alvarleika ofbeldis og ábyrgð þeirra í samfélaginu.

Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hafa komið upp tilvik þar sem börn hafa beitt og orðið fyrir alvarlegu ofbeldi, þar á meðal grunur um vopnaburð, frelsissviptingu og dreifingu myndefnis af ofbeldinu.

Framkvæmdateymi Öruggara Suðurlands hefur þegar skipað vinnuhóp til að kortleggja stöðu ungmenna í sveitarfélaginu með tilliti til áhættuhegðunar. Samhliða því vinnur forvarnarteymi Árborgar að áætlunum um forvarnir og fræðslu, með sérstaka áherslu á að stemma stigu við ofbeldis- og áhættuhegðun ungmenna.

Sveitarfélagið hvetur foreldra til að tala við börnin sín og fræða þau um mikilvægi þess að forðast ofbeldi. „Mikilvægi samvinnu heimila, skóla og frístundastofnana skiptir höfuðmáli,“ segir í tilkynningunni.

Árborg hefur einnig birt leiðbeiningar á heimasíðu sveitarfélagsins, þar sem foreldrar geta nálgast nánari upplýsingar, ásamt verklagsreglum um viðbrögð við slæmri hegðun nemenda.

Nýjar fréttir