-1.4 C
Selfoss

Úr Þorlákshöfn í Þjóðleikhúsið

Vinsælast

Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir er ungur og metnaðarfullur Ölfusingur með ástríðu fyrir leikhúsheiminum. Hún hefur alla tíð haft áhuga á sviðslistum og dreymir um að fá að starfa á því sviði í framtíðinni. Hún vinnur núna sem leikmunavörður í Borgarleikhúsinu og komst nýverið inn í nýjan leikhússkóla Þjóðleikhússins.

Margt til lista lagt

Sigríður Fjóla, eða Sirrý eins og hún er gjarnan kölluð, hefur verið í sviðslistum frá unga aldri. Þegar hún var yngri var hún mikið í Leikfélagi Ölfuss, ásamt því að stunda sirkus, fimleika og spila á hljóðfæri.

Nýlega komst hún inn í leikhússkóla sem er á vegum Þjóðleikhússins. Það er nýtt nám á Íslandi þar sem boðið er upp á faglega eins árs leikhúsmenntun, þar sem nemendur kynna sér hin ólíku störf leikhússins, meðal annars hönnun leikmynda, búninga, lýsingar og hljóðs, sýningarstjórn, leikritun og leiklist. Nemendur öðlast þannig víðtæka þekkingu á listforminu og fá tækifæri til að kynnast sjálfu sér sem listafólki og styrkja sýn sína, færni og áhuga. Sirrý telur að um 130 manns hafi sótt um í skólann en eingöngu 19 fengu inngöngu.

Kærustupar og bekkjarsystkin

Aðspurð hvernig inntökuferlið fór fram segist Sirrý hafa séð þetta auglýst á netinu. „Þá átti maður að svara nokkrum spurningum og allir sem að sóttu um áttu að gera skriflegt verkefni sem við sendum inn. Það voru held ég fjörutíu sem komust í næstu prufur. Síðan hittum við dómarana og áttum að búa til mjög stutta sýningu sem var kannski einnar mínútu löng og hugsa út í allt sem tengdist sýningunni.“ Prufurnar gengu vel og fékk Sirrý inngöngu í skólann. Ásamt henni komst kærastinn hennar, Matthías Davíð, líka inn en hann er þekktur fyrir að vera í hljómsveitinni VÆB sem gerði garðinn frægan í Söngvakeppninni fyrr á árinu. „Það er mjög gaman að við höfum bæði komist inn. Núna verðum við líka bekkjarsystkin,“ segir Sirrý.

Parið Sirrý og Matthías komust bæði inn í Þjóðleikhússkólann.
Ljósmynd: Instagram/@sirryfjola

Stefnir á leiklistina í framtíðinni

Sirrý segist vilja taka reynslu út úr þessu námi. „Ég held að ég fái ótrúlega mikla reynslu af þessu og mér finnst líka ótrúlega skemmtilegt að þetta sé um allt leikhúsið. Þú ert að læra ljós og hljóð, ekki bara á sviðinu og ég held að það sé ótrúlega mikilvægt.“ Hún segir að þetta nám sé gott fyrir alla sem hafa áhuga á sviðslistum.

Í framtíðinni segist Sirrý vilja verða leikkona. „Ég ætla að gera held ég eiginlega bara allt til þess að það rætist.“ Hún ætlar að reyna við leikarabraut í LHÍ en ef það klikkar ætlar hún til útlanda. „London er svolítið hátt á listanum mínum yfir hvar ég myndi vilja læra en ef að peningur skiptir ekki máli þá myndi ég vilja læra í Bandaríkjunum.“

Ásamt því að byrja í leikhússkólanum er Sirrý að æfa Ávaxtakörfuna með Leikfélagi Hveragerðis í hlutverki Geddu gulrótar. Hún er líka í fullu starfi í Borgarleikhúsinu og er að fara að byrja í Söngskóla Sigurðar Demetz. „Það er svolítið mikið að gera en það er bara gaman,“ segir Sirrý að lokum.

Sirrý í hlutverki Dídíar mannabarns í sýningunni Benedikt búálfur hjá Leikfélagi Hveragerðis.
Ljósmynd: Leikfélag Hveragerðis.

Nýjar fréttir