1.7 C
Selfoss

Rúmlega 3 milljónir söfnuðust fyrir Einstök börn

Vinsælast

Eiðfaxi afhenti Einstökum börnum styrk, sem safnaðist á Stóðhestaveislu Eiðfaxa í apríl, á Íslandsmóti barna og unglinga sem fór fram í júlí sl.

Stóðhestaveisla Eiðfaxa er orðin árlegur viðburður og í ár var hún haldin 16. apríl í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli. Viðburðurinn hefur notið mikilla vinsælda og eins og síðustu ár hafa færri komist að en vilja. Í gegnum tíðina hafa hestamenn látið gott af sér leiða á Stóðhestaveislunni og hafa safnast á milli 50 – 60 milljónir í tengslum við þennan viðburð. Málefnin hafa verið fjölbreytt en safnað hefur verið fyrir líknarfélög, góðgerðarfélög og einstaklinga.

Varð stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni, Einstök börn, fyrir valinu í ár. Tveir folatollar voru gefnir til styrktar Einstökum börnum, Guðbrandur Stígur Ágústsson gaf toll undir Stein frá Stíghúsi og Olil Amble undir Sleipnisbikarhafann, Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum. Einnig gáfu fjöldi annarra ræktenda folatolla og ýmis fyrirtæki vinninga í happdrætti söfnunarinnar.

Ljósmynd: Eiðfaxi.

Eiðfaxi þakkar velviljann en saman náðum við að safna 3.033.000.- sem rennur óskipt til félags Einstakra barna. Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Eiðfaxa og Laufey Líf Magnúsdóttir afhentu þeim Guðrúnu Huldu Harðardóttur, Ágústi Kristmanns, Maroni Péturssyni, Ingva Teitssyni og Elísabetu Kristínu Alexdóttur O’Dell ávísun með upphæðinni á sunnudeginum á Íslandsmóti barna og unglinga.

„Upphæðin fer í það að fjármagna og tryggja það að við getum haldið áfram með hópastarfið fyrir börn og ungmenni í vetur. Það hefði ekki verið hægt nema með þessum styrk,” sagði Guðrún Helga við tilefnið.

Eiðfaxi

Nýjar fréttir