1.7 C
Selfoss

Nettó með mestu verðlækkunina

Vinsælast

Verð í verslunum Nettó lækkaði mest allra verslana á milli júlí og ágúst samkvæmt mælingum Verðlagseftirlits ASÍ. Er tekið fram í greiningu ASÍ að hjá Nettó hafi verð í langflestum vöruflokkum lækkað, þeirra mest flokkur léttmjólkur, um 4,4%.

„Frá því í janúar hefur verð lækkað í helstu vöruflokkum í Nettó og mun verslunin halda áfram að spyrna gegn verðhækkunum með markvissum hætti. Síðustu vikur höfum við gengið enn lengra en áður í þessari vegferð og lækkað verð verulega á mörgum mikilvægum nauðsynjavörum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.

„Árangurinn sést meðal annars í nýlegri greiningu frá Verðlagseftirliti ASÍ, en þar kemur fram að á milli júlí og ágúst lækkaði matvöruverð mest í verslunum Nettó. Við þetta má bæta að Verðlagseftirlitið mælir ekki verð á öllum vörum og að lækkanir Nettó eru enn meiri en mælingar ASÍ gefa til kynna,“ bætir hann við.

Stefna Nettó er að bjóða eftir fremsta megni fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili, ásamt því að tryggja samkeppnishæft verð á helstu nauðsynjavörum heimilisins. Á þessu ári hefur Nettó endurskoðað verðlagningu í ýmsum vöruflokkum, með það að markmiði að lækka verðið á innkaupakörfunni.

„Þessi vegferð verðlækkana hefur kallað á mikla vinnu og krafist útsjónarsemi en það er ánægjulegt að sjá árangurinn raungerast. Í dag birti Hagstofan nefnilega nýjar verðbólgutölur og þar sést að í fyrsta skipti í þrjú ár lækkar matvöruverð á milli mánaða. Nam lækkunin 0,5% og hefur það áhrif til lækkunar vísitölu neysluverðs. Markmið okkar allra á að vera að ná verðbólgu niður og við erum stolt af þeim árangri sem við hjá Nettó höfum náð,“ segir Gunnar að lokum.

Nýjar fréttir