-1.4 C
Selfoss

Fundu ættingja á Íslendingadegi í Kanada

Vinsælast

Um 50 þúsund manns komu saman í Gimli í Kanada fyrstu helgina í ágúst til þess að fagna árlegum Íslendingadegi. Einnig komu saman um 5000 manns í Mountain í Norður-Dakóta í sama tilgangi. Hátíðin er mikilvægur viðburður fyrir Íslendinga í Vesturheimi. Þeir hafa haldið tengslum við Ísland og minnst rótanna með þessum degi.

Á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. fluttu um 20 prósent þjóðarinnar til Vesturheims í leit að betra lífi, aðallega til Bandaríkjanna og Kanada. Það voru um 15 þúsund manns. Þessar slóðir fengu nafnið Nýja Ísland.

Systkinin Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Valdimar Hafsteinsson framkvæmdastjóri Kjöríss sóttu hátíðina og lýsa þau þeirri einstöku upplifun sem það var að fara á svona hátíð.

Guðrún heiðursgestur hátíðarinnar

Þegar systkinin voru spurð hvað kom til að þau sóttu þessa hátíð í ár segir Guðrún að henni hafi verið boðið að vera heiðursgestur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á Íslendingadeginum. „Það hefur skapast sú hefð að það er nánast alltaf einhver ráðherra heiðursgestur og ég ákvað strax að þiggja boðið af því mig hefur alveg langað að fara á Íslendingadaginn en ekki haft tækifæri til þess.“ Í kjölfarið ákvað Valdimar að fara með henni af því hann hafði lengi látið sig dreyma um það að sækja þessa hátíð.

Guðrún segir það einstaka upplifun að koma á þessar slóðir. „Það er sérstakt að koma og hitta afkomendur sem eru á tíræðisaldri í dag og tala íslensku nánast reiprennandi. Þá vantar kannski aðeins orðaforða, eru með svona fornan orðaforða og hafa kannski bara einu sinni komið til Íslands.“ Hún segir að það sé ofboðsleg þrá hjá fólki að missa ekki tengslin við Ísland og Íslendinga.

Leið eins og drottningu í þjóðbúningi

Hápunktur hátíðarinnar er skrúðganga sem Guðrún fékk að taka þátt í. „Það var alveg sérstakt að sitja í fremsta bíl og vera svona nánast eins og drottning í þjóðbúningi”, segir hún. Valdimar tekur fram að það hafi verið tekið mjög vel á móti heiðursgestinum frá Íslandi. Guðrún segir að þarna ríki mikil gestrisni sem minnir á Færeyinga. „Við Valdi höfum farið nokkrum sinnum til Færeyja og mér finnst óskaplega gaman í Færeyjum og ég fékk svona svipaða tilfinningu, Færeyingar eru mjög gestrisnir og Vestur-Íslendingar eru það líka.“

Haldið var líka upp á Íslendingadaginn í Mountain í Norður-Dakóta. Ljósmynd: Valdimar Hafsteinsson.

Fjallkonan í hávegum höfð

Hátíðarhöld voru á Íslendingadeginum vegna 100 ára afmælis fjallkonunnar, en hún birtist í Vesturheimi langt áður en hún kom til Íslands. Það þykir mikil upphefð að vera valin fjallkonan. Oftast er eldri dama kjörin og er sérstök nefnd sem velur hana. Hún verður að hafa gefið af sér í samfélaginu og haft jákvæð áhrif. „Þetta eru oft svona fullorðnar konur og þær eru fjallkonur í heilt ár og hafa ýmsum skyldum að gegna,“ segir Guðrún.

Sigrún Kristjánsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir ásamt fjallkonunni. Ljósmynd: Valdimar Hafsteinsson.

Fundu ættingja frá Marteinstungu

Valdimar hefur alltaf haft mikinn áhuga á ættfræði og lagðist hann í rannsóknarvinnu fyrir ferðina. „Ég fór að grafast fyrir um forfeður okkar og skyldmenni sem höfðu flutt út á sínum tíma. Svo þegar við vorum komin þarna og vorum í rútu segir fararstjórinn okkar hvaðan hann var. Hann sagði að hans ættir væru frá Marteinstungu. Þá kveiktum við aðeins smá á peru af því að Marteinstunga er í Holtunum þar sem mamma okkar er frá.“ Valdimar fór í ættfræðigrunninn og leitaði að tengslum og komst að því að þessi maður væri fjórmenningur við mömmu þeirra. „Sem þykir mikill skyldleiki þarna úti. Hann heitir Peter Björnsson. Pabbi hans, Donald Björnsson, er ættaður frá Marteinstungu og mamma hans heitir Herdís Guðrún en hún er ættuð úr Skagafirði,“ segir Guðrún. Þótti allri fjölskyldunni þetta mjög merkilegt. Peter er fyrrum landbúnaðarráðherra í Manitoba í Kanada. „Hann var mjög upp með sér að ég væri líka ráðherra og sagði öllum að stjórnmálin væru í ættinni,“ segir Guðrún og hlær.

Guðrún og Valdimar ásamt ættingjum.
Ljósmynd: Sigrún Kristjánsdóttir.

Fólk vill tengjast Íslandi

Guðrún segir að hún hafi fundið það mjög sterkt að fólk vilji tengjast Íslandi. „Það er mjög merkilegt að finna þennan íslenska hjartslátt og menninguna og annað í svona landi sem er svona langt í burtu. Til dæmis eins og fyrir aldamótin 1900 þá voru gefnar út fleiri bækur á Nýja Íslandi heldur en hér. Þeir gáfu út mörg dagblöð og það var mjög mikið menningarlíf og þau halda í menningararfinn.“ Valdimar segir að flestir Íslendingar hafi tekið með sér bækur þegar þeir fluttu. „Það hafa verið að finnast allt fram á þennan dag eldgömul handrit og bækur sem eru núna mikið varðveittar í háskólanum í Winnipeg.“

Tengslin mega ekki rofna

Guðrún talar um mikilvægi þess að halda í tengslin við Vesturheim. Eftir því sem árin líða er meiri hætta á því að yngra fólk missi áhugann. Það er margt gert til þess að kveikja á honum. „Eitt er til dæmis Snorraverkefni þar sem fólk getur farið í skiptinám og verið í nokkrar vikur, þar sem kanadísk ungmenni geta verið hér og íslensk geta verið hjá þeim,“ segir Guðrún. Íslensk stjórnvöld gerðu samning við Kanada á síðasta ári þar sem Kanadamenn og Íslendingar undir þrítugu geta farið og dvalið í landinu í allt að tvö ár við vinnu eða eitthvað annað án þess að þurfa að fara í gegnum þungt leyfisferli.

Jón Sigurðsson við hlið Viktoríu Bretadrottningar

Kanada er fylkjasamband eins og Bandaríkin, þar sem hvert fylki á sér þing. Á lóðinni fyrir framan þinghúsið í Manitopa eru tvær styttur, önnur er af Viktoríu Bretadrottningu og hin af Jóni Sigurðssyni forseta. „Hann stendur þar í öndvegi, eftirlíking af styttu Jóns Sigurðssonar sem er á Austurvelli. Íslensk áhrif eru víða, og á mörgum húsum þegar þú ert að keyra sveitirnar þá er flaggað íslenskum fána,“ tekur Guðrún fram. Valdimar segir einnig að götur og bóndabæir beri flest íslensk nöfn. Einnig er mikill metnaður lagður í vínartertuna. „Það eru svona íslensku tengslin sem hafa skapað hana sem ættjarðarkökuna þeirra,“ segir Valdimar.

Mörg hús og götur heita íslenskum nöfnum.
Ljósmynd: Sigrún Kristjánsdóttir.

 

Gestrisni og hjartahlýja áberandi

Guðrún segir að það sem sitji eftir eftir ferðina sé mikil gestrisni og hjartahlýja. Valdimar tekur fram að það hafi verið gaman að hitta fólk sem hefur svona mikinn áhuga á Íslandi. „Þarna hittum við fullt af fullorðnu fólki sem felldi tár og sögðu að þegar þau komu til Íslands í fyrsta sinn og stigu á íslenska jörð þá fundu þau í hjarta sínu að þau væru komin heim, fólk sem er fætt í Kanada,“ segir Guðrún.

Að lokum segir Guðrún að þau vilji hvetja sem flesta til að heimsækja þessar slóðir af því að enginn verði samur á eftir.

Nýjar fréttir