3.4 C
Selfoss

Suðurlandsdeild Ferðaklúbbsins 4×4 hefur sitt 36. starfsár

Vinsælast

Ferðaklúbburinn 4×4 var stofnaður 11. mars 1983 og samanstendur af móðurfélaginu, sem er staðsett í Reykjavík, og síðan 10 deildum vítt og breitt um landið. Suðurlandsdeildin var stofnuð 16. janúar 1989 og er því að renna af stað í sitt 36. starfsár. Deildin er bæði fjölmenn og mjög öflug innan Ferðaklúbbsins og samanstendur af áhugafólki um útivist, ferðafrelsi og landvernd, á öllum aldri. Aðalsnertipunktur eru breyttir jeppar til ferðalaga á hálendi Íslands. Starfið í klúbbnum er leitt áfram af hugsjóninni um að ganga vel um landið okkar og gæta að ferðafrelsi, ásamt fleiru.

Félagsfundir eru haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði frá september til maí og síðan eru leiddar ferðir inn á hálendið reglulega yfir veturinn. Fundirnir eru á ýmsu formi, stundum heimsóknir til fyrirtækja og stundum hittingur í sal þar sem fengnir eru góðir gestir. Einnig er lagt upp með að þekking og reynsla þeirra sem eldri eru í sportinu gangi áfram til þeirra sem eru nýrri, kenna handbrögð og sýna hvernig við umgöngumst landið af virðingu og læra hvert af öðru í breytingum bíla.

Starfsárið hefst þriðjudaginn 3. september með heimsókn í Ísfell í Þorlákshöfn. Fundurinn ber vinnuheitið „Spottar og spil“ og eins og nafnið segir til um verður aðaláhersla kvöldsins að læra um dráttartóg og spil, hvernig best er að losa bíla sem festa sig við mismunandi aðstæður, hvar á að binda í bílinn, öryggisatriði við drátt o.fl. Allir fá kennslu í að splæsa enda og hægt verður að gera góð kaup á vörum fyrir bílinn eins og teygjuspottum o.fl. Samhliða þessu verður jeppasýning í Þorlákshöfn fyrir utan Ísfell. Félagsfólk er hvatt til að mæta á breyttu jeppunum sínum og stilla þeim upp fyrir utan þannig að úr verði hin skemmtilegasta sýning sem allir áhugasamir geta kíkt á.

Áhugasamir geta kynnt sér klúbbinn og starfið á www.f4x4.is og á Fésbókarsíðu Suðurlandsdeildar www.facebook.com/groups/f4x4sudurlandsdeild/

Nýjar fréttir