11.7 C
Selfoss

Torfdagurinn haldinn hátíðlegur

Vinsælast

Torfdagurinn verður haldinn hátíðlegur þann 31. ágúst næstkomandi.

Torfdagurinn er hugsaður sem árleg hátíð og samráðsvettvangur áhugafólks á öllum aldri um aldagamla íslenska hleðslutækni og byggingararf og jafnframt vettvangur til að kveikja áhuga og nýsköpun á þessu sviði – sem hefur óþrjótandi möguleika.

Hvergi í heiminum hefur torf, grjót og mold verið fyrirferðarmeira byggingarefni í mannvirkjum en á Íslandi, allt frá landnámi upp úr 850 og fram undir seinna stríð 1940. Ganga má að því vísu að sé eitthvað handverk og verklag stundað óslitið í jafn langan tíma náist hámarksárangur með tilliti til efnistilfinningar og möguleika í útfærslum; og smíði og aðlögun verkfæra að fyrirliggjandi hráefni. Afar mikilvægt er að þetta handverk hafi vettvang til að þrífast og þróast inn í framtíðina.

Á Torfdeginum verður um að ræða margvíslega myndræna framsetningu á torf- og grjótveggjum, greiningu á vistkerfi mýrarinnar með tilliti til fuglalífs og einkennandi gróðurs og jarðvegseiginleika. Einnig hönnun verkefna og „kubba“ sem hæfa yngsta aldurshópnum til að byggja veggi og kveikja innsæi í aldagamlan arf. Þá verður boðið upp á „torfsúkkulaði“ með kaffinu s.s. klömbruhnaus með matchatei þar sem grasið er.

Dagskrá Torfdagsins hefst kl. 14:00 31. ágúst í safnahúsi Íslenska bæjarins að Austur Meðalholtum. Á dagskrá verður torfrista, torfstuga og veggjahleðsla, sýning á torfhnausum og hefðbundnum verkfærum, umfjöllun um handbók um hleðslutækni, fyrirlestur um stærsta vegg á Íslandi, kynning á fuglalífi og gróðurfari mýrarinnar og lykilplöntur í torfstungumýrum kynntar til leiks, eldsmíði þar sem torfljár verður smíðaður, langspilsleikur, teikning og leirmótun. Á borðum verður kaffi og grasate, kleinur, súkkulaðifuglar og frumsmökkun á torfsúkkulaði.

Einstakir liðir dagskárinnar verða auglýstir sérstaklega þegar nær dregur á FB- og Instagram-síðum Íslenska bæjarins.

Nýjar fréttir