-8.9 C
Selfoss

Trufflupasta

Vinsælast

Jenný Jóhannesdóttir er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég læt ekki segja mér það tvisvar þegar kemur að áskorunum. Það var hún Dagný Lóa sem skoraði á mig og að sjálfsögðu tek ég þeirri áskorun! Það er kominn mánuður síðan við fjölskyldan fluttum hingað á Selfoss. Við fundum strax hvað við værum velkomin. Við sjáum svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun. Mér finnst mjög gaman í eldhúsinu þegar ég gef mér tíma og þá oftar en ekki finnst mér gaman að henda í dýrindis pastarétt fyrir fjölskylduna. 

Uppskriftin sem ég valdi er ein af mínum uppáhalds, fengin að láni frá bestu vinkonu minni. Hún er mjög auðveld og þú sérð ekki eftir því að prófa hana, því lofa ég. Það er svo alveg til að toppa allt að hafa burrata-ost og hvítlauksbrauð með þessu.

Trufflupasta 

Pasta
Sveppir
Laukur
Villisveppaostur
Rjómi
Truffluolía
Basilíka
Parmesan
Salt

Sjóðið pasta upp úr vel söltu vatni, smjörsteikið sveppi og lauk, bræðið villisveppaost upp úr rjóma og truffluolía eftir smekk (ég vil persónulega hafa nóg af henni!) Saltið sósuna og blandið öllu saman áður en smátt skorinni basilíku og parmesan er dreift yfir herlegheitin.

Meðlæti

Burrata-ostur
Pestóið frá Önnu Margréti (fæst í Krónunni)
Tómatar, smátt skornir
Basilíka
Salt 

Hellið pestóinu, tómötunum, basilíku og smá salti yfir burrata-ostinn og njótið með Finn Crisp með hvítlauk eða hvítlauksbrauði og dásamlega trufflupastanu.

Auðvelt og ljúffengt, verði þér að góðu! 

Að lokum langar mig að skora á manninn minn, Valgeir Emil Sigurgeirsson, sem er algjör eðalkokkur og á eflaust eftir að bjóða lesendum upp á einhverja snilldina úr sínum bókum.

Nýjar fréttir