-9.7 C
Selfoss

Bókasafn Árborgar fær góða gjöf

Vinsælast

Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavinafélagsins Örvars, var góður gestur á fundi öldungaráðsins á Selfossi þann 21. ágúst sl. Hann færði Heiðrúnu Dóru Eyvindardóttur, forstöðumanni Bókasafns Árborgar góða gjöf. Þetta voru tíu myndabækur af Séð og Jarmað frá árinu 2011. Allt myndir úr sögu og starfi Hrútavinafélagsins.

Hrútavinafélagið Örvar var stofnað fyrir 25 árum á hrútasýningu að Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna hjá Bjarkari Snorrasyni bónda. Margt hefur drifið á daga félagsins og Björn Ingi er góður myndasmiður og þessi myndrit Séð og Jarmað geyma stórmerka myndasögu ekki síst úr starfi félagsins og öðrum samkomum á Stokkseyri og Eyrarbakka. Þar eru myndir frá þorrablótum, búnaðarfélagsfundum og sýna þær frá lifandi samfélagi og gleðistundum.

Hluti af öldungaráði Selfoss.
Ljósmynd: Guðni Ágústsson.

Björn Ingi er ættaður frá Flateyri og hefur með mörgum haldið utan um æskuslóðir og staðið fyrir hátíðum þar vestra svo sem Grænlandsdögum.

Nú býr Björn Ingi á Eyrarbakka og flaggar danska fánanum á sunnudögum í minningu hins forna verslunarstaðar Sunnlendinga. Á Eyrarbakka stóð Vestur-búðin (Lefolíuverslunin) sem margir sakna og yrði mögnuð endurreist á ný í hinu sögufræga þorpi. Danskir kaupmenn hófu byggingu verslunarhúsa á Eyrarbakka árið 1755. Húsið og Assistentahúsið standa enn og minna á hinn gamla tíma, þar bjuggu verslunarstjórarnir. Húsið var reist 1765 og er því elsta hús í Árnessýslu.

Myndirnar skipta þúsundum í þessum tíu myndabókum Séð og Jarmað og þar eru góðar heimildir í myndum um einstaklinga og atburði í sveitarfélaginu okkar. “Sannarlega lifandi bækur sem margir vilja örugglega skoða og eru allir velkomnir í Bókasafnið í Ráðhúsi Árborgar í kaffisopa og að fletta myndabókunum,” segir Heiðrún Dóra.

Guðni Ágústsson

Heiðursforseti Hrútavinafélagsins Örvars

Nýjar fréttir