-5.2 C
Selfoss

30 ár frá fyrstu Töðugjöldum

Vinsælast

Töðugjöld fóru fram í Rangárþingi ytra 11.–18. ágúst sl. Í ár voru 30 ár frá fyrstu hátíðinni og nóg um að vera fyrir fólk á öllum aldri. Menningarviðburðir voru haldnir alla vikuna og náði hátíðin svo hámarki með hefðbundnum hátíðardegi 17. ágúst.

Dagskráin var að miklu leyti svipuð og undanfarin ár en nokkrar nýjungar skutu þó upp kollinum. Birta Sólveig Söring Þórisdóttir sýndi leikverk þrjú kvöld í byrjun vikunnar. Hellarnir við Hellu buðu heim á miðvikudeginum, BMX brós heimsóttu okkur á fimmtudeginum og þá um kvöldið héldu Raddir úr Rangárþingi frábæra rokktónleika fyrir fullu íþróttahúsi. Töðugjaldahlaupið var haldið á föstudeginum við mjög góðar undirtektir og þorpararöltið vinsæla var svo á föstudagskvöldinu, en þá bjóða íbúar heim í veitingar og skemmtun. Mikil stemning var í ár og mjög góð þátttaka.

Mikill metnaður var lagður í skreytingar. Ljósmynd: Rangárþing ytra.

Laugardagurinn var afar líflegur með fjölbreytta dagskrá og afþreyingu. Má þar nefna bílasýningu, hoppukastala, klifurvegg, loftbolta, matarvagna, markaði, listasmiðju, ýmsar keppnir, leiksýningu, töfrabrögð frá Ingó Geirdal, tónlistaratriði frá VÆB og margt fleira. Um kvöldið var kvöldvaka með frábærum tónlistaratriðum. Þar komu m.a. fram Raddir úr Rangárþingi, skólahljómsveitin, Fríða Hansen og Kristinn Ingi, Emmsjé Gauti og FLOTT. Að venju endaði kvöldið á stórkostlegri flugeldasýningu Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.

Leikhópurinn Lotta heimsótti okkur á sunnudeginum og Hólmfríður Samúelsdóttir, ásamt fríðu föruneyti, sló botninn í dagskrá Töðugjalda með tónleikunum Hjartans mál.

Allt fór þetta vel fram og veðrið lék við okkur. Sveitarfélagið vill koma á framfæri innilegu þakklæti til íbúa og gesta og til allra styrktaraðilanna sem hjálpuðu okkur að gera hátíðina að veruleika.

Nýjar fréttir