-3.1 C
Selfoss

„Náttúran er ég ef ég leyfi henni að vera það“

Vinsælast

„Streita er upplifun sem við öll tengjum við með einum eða öðrum hætti. Við förum ekki í gegnum lífið nema mæta streituvaldandi upplifunum,“ segir Berglind Magnúsdóttir, félagsráðgjafi, meðvirkni- og áfallasérfræðingur og meðferðaraðili hjá ráðgjafaþjónustunni Fyrsta skrefið á Selfossi, í samtali við Dagskrána. Hún hefur lengi haft áhuga á áhrifum streitu á líf fólks og hefur gert það að atvinnu sinni að styðja einstaklinga við að takast á við streitueinkenni í daglegu lífi.

Rannsóknir á áhrifum náttúrunnar á streitu

Berglind ætlar að bjóða upp á námskeið sem hefst þann 6. september, þar sem hún kennir fólki að nýta náttúruna til streitulosunar. Við mastersnám sitt í félagsráðgjöf rannsakaði hún áhrif náttúrunnar á streitu. Hún segir að streitueinkenni séu mismunandi eftir einstaklingum og geta verið líkamleg, andleg eða hegðunarleg. Dæmi um þessi einkenni eru hækkaður blóðþrýstingur, meltingartruflanir, svefntruflanir, kvíði og pirringur.

Uppbygging námskeiðsins, sem fer fram að Austurvegi 9 á Selfossi og víðast hvar í náttúrunni, er þríþætt: Kennsla, náttúran og núvitund. Þema einkennir hvern tíma þar sem áhersla er lögð á að þátttakandi tengist náttúrunni með ólíkum hætti. Í hverjum tíma verður kennsla sem tengist viðkomandi þema. Kennslan er mótuð með það að leiðarljósi að þátttakandi taki hana með sér inn í náttúruna og síðar daglegt líf. Í hverjum tíma er svo farið út í náttúruna þar sem markmiðin eru ólík hverju sinni. Markmiðið er að þátttakandi nái tengslum við náttúruna og því samhliða sjálfum sér í núvitund með öndun sem kallast Transformational Breath.

Upplifun af náttúru sem lausn við streitu

Berglind lýsir því hvernig hugmyndin um námskeiðið kviknaði eftir að kennari spurði hana hvort hún hefði áhuga á að rannsaka upplifun og reynslu þátttakenda af náttúru á námskeiði. Hún fann strax að þetta var eitthvað sem hún vildi rannsaka nánar. „Náttúran hefur alltaf verið stór jákvæður partur af lífi mínu og niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að með því að dvelja í náttúrunni þá minnka streitueinkenni. Þátttakendum þótti jákvætt og styðjandi að hafa leiðbeinanda til að greiða úr tilfinningalegum vanda sem síðan hafði jákvæð áhrif á streitueinkenni. Kvíðaeinkenni, pirringur, reiði, félagsfælni, ráðaleysi minnkaði og orka til að takast á við dagleg verkefni jókst. Það var auðveldara að takast á við lífið með auknum lífsgæðum og seiglu. Skynjun jókst eins og þakklæti, gleði, jákvæðni, ró, von og dýpri tengsl við tilfinningar,“ segir hún.

Við þessar niðurstöður fann Berglind þrýsting á að þróa námskeið af þessum toga hér á Suðurlandi. Markmið námskeiðsins er að mæta þeim sem vilja minnka streitueinkenni og auka gleði, kraft og kærleika með því að nýta náttúruna, andardráttinn og fræðslu. „Það getur verið erfitt að prófa eitthvað nýtt, en það er líka erfitt að upplifa streitu sem er hamlandi fyrir lífið okkar,“ segir hún.

Náttúran hefur alltaf verið jákvæður partur af lífi Berglindar.
Ljósmynd: Dfs.is/HGL

Tengsl náttúru og streitulosunar

Berglind talar um tengslin milli náttúru og streitulosunar sem eitthvað sem við höfum öll innbyggt í okkur. Hún bendir á að fyrsta skrefið til streitulosunar með hjálp náttúrunnar sé að taka ákvörðun um að stíga út í náttúruna, jafnvel þó það sé bara í stutta stund. Hún segir að einföld ráð, eins og að anda að sér fersku lofti eða ganga í vinnuna, geti verið byrjunin á að tengjast náttúrunni og finna frið.

Berglind segist vona að fólki takist að rifja upp þekkinguna sem býr innra með okkur öllum. „Náttúran græðir. Leyndardómar hennar mæta leyndardómunum innra með okkur. Hún dregur okkur upp í skýrari skynjun, tengingu og kraft sem opnar á góðar tilfinningar og hugsanir. Streitulosun í náttúrunni er meðfæddur eiginleiki og tengslin okkar við hana eru nauðsynleg til að stuðla að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Eina verkefnið okkar er að stíga inn í hana og „finna“.“

Þá segir hún það hafa verið mikinn lærdóm að taka viðtöl við viðmælendur rannsóknarinnar eftir að þeir hefðu fengið rými til að dvelja í náttúrunni. „Ég man sérstaklega eftir einum viðmælanda sem hafði fyrir einhverjum árum misst barn sitt og hafði aldrei náð að vinna almennilega úr því áfalli. Birtingarmyndir streitunnar voru höfuðverkur, minnisleysi, svimi, óróleiki og hraði, ráðaleysi, kvíði, hjartsláttaróregla, sorg, framkvæmdarleysi, ógleði, lágur áreitisþröskuldur og óþolinmæði. Streitan var áþreifanleg og sorgin djúp. Í síðara viðtalinu var svo fallegt að hitta viðkomandi, birtan leyndi sér ekki. Færnin til að njóta og vera var ríkari, viðmælandinn upplifði meiri mildi, sjálfsskilning og nærgætni, ríkari tengsl við raunveruleikann og meðvitund. Einnig upplifði viðmælandinn minni streitu og að lífið væri auðveldara en fyrir námskeið.“

Hér eru orð viðmælanda:

„Náttúran bæði grætur með mér og græðir á sama tíma. Það að finna mér stað í náttúrunni, hvort sem það er að liggja eða standa og bara vera, það gerir svo mikið sem er kannski erfitt að útskýra í svona sorgarúrvinnslu og áfallavinnu. Ég get talað og talað mig í kaf einhvern veginn en stundum er það eitt og sér ekki nóg. Það þarf eitthvað meira til, og náttúran kemur svona sterk inn þarna.“

Berglind lýsir því sömuleiðis hvernig náttúran hefur hjálpað henni sjálfri í gegnum erfiðleika. Þegar hún sjálf fann fyrir djúpri streitu eftir að hafa fengið COVID-19 leitaði hún í náttúruna og andardráttinn til að ná sér til baka. „Náttúran talar við mig, nærir mig og mætir mér þar sem ég er. Náttúran er ég ef ég leyfi henni að vera það.“

Þau sem hafa áhuga á námskeiðinu geta skoðað www.fyrstaskrefid.is undir flipanum námskeið eða sent Berglindi tölvupóst á berglind@fyrstaskrefid.is.

Nýjar fréttir