2.3 C
Selfoss

Stefnir á Ólympíuleikana í Los Angeles 2028

Vinsælast

Selfyssingurinn Hákon Þór Svavarsson fór nýlega á Ólympíuleikana í París þar sem hann tók þátt í haglabyssuskotfimi og endaði í 23. sæti af 30 keppendum. Þetta er besti árangur Íslendings í greininni til þessa. Í tilefni af frammistöðunni var haldin athöfn á Brúartorgi á Selfossi þar sem Bragi Bjarnason bæjarstjóri Árborgar færði Hákoni blómvönd og óskaði honum til hamingju með árangurinn. Fjöldi fólks mætti til að fagna með honum og veðurblíðan skapaði einstaka stemmingu.

Einstök upplifun að keppa á Ólympíuleikunum

Í viðtali við Hákon lýsir hann keppninni sem einstakri upplifun, langt frá því sem hann hefur áður kynnst. „Þetta var bara mjög spennandi og skemmtilegt. Þetta er náttúrulega öðruvísi en öll önnur mót, miklu meiri læti og miklu fleiri áhorfendur,“ sagði Hákon. Hann fann fyrir mikilli orku á meðal áhorfenda, sem gaf honum aukið drif til að standa sig vel.

Þegar hann er spurður um upplifunina í Ólympíuþorpinu segir Hákon að skotmennirnir hafi verið í minni hluta þorpsins, sem passaði honum vel sem sveitamanni.

Mikilvægt að hafa gott bakland

Undirbúningurinn fyrir keppnina var krefjandi og krafðist mikillar einbeitingar og stuðnings frá fólkinu í kringum hann. „Ég er mjög heppinn með vini og fjölskyldu og það skiptir gríðarlegu máli og það er stór hluti af andlega undirbúningnum í þessu,“ segir Hákon og undirstrikar mikilvægi þess að hafa gott bakland.

Eftirminnilegasta augnablikið í keppninni var þegar hann lauk síðustu umferðinni með fullu húsi. „Það var frábært og að hlusta á lætin í áhorfendunum, það var mjög skemmtilegt,“ lýsir hann.

Hákon fékk mikinn stuðning frá Íslendingum á leikunum. „Það voru átta sem komu og fylgdust með mér. Það er örugglega heimsmet miðað við höfðatölu,“ segir hann glettinn. Auk þeirra var á svæðinu fólk frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.

Vill að fólk horfi öðrum augum á íþróttina

Aðspurður um framtíðaráform og hvaða áhrif árangurinn gæti haft á skotfimi á Íslandi, vonast Hákon til að fleiri fái áhuga á íþróttinni. „Vonandi að fólk komi meira í þetta og horfi aðeins öðrum augum á þetta. Við eigum aðeins undir högg að sækja. Við erum með byssur, það á að vera eitthvað hættulegt en það er það bara ekki. Bara eins og allar íþróttir, ef fólk gerir þetta almennilega þá er þetta ekkert vesen,“ útskýrir hann.

Hvað framtíðina varðar, hefur Hákon augun á næstu Ólympíuleikum. „Afreksstjóri ÍSÍ fór aðeins illa með mig, hann ræddi við fjölskylduna strax eftir keppnina og fékk leyfi hjá þeim. Ég ætti að stefna á Los Angeles 2028,“ segir Hákon að lokum og hlær.

Nýjar fréttir