-4.1 C
Selfoss

70 keppendur á héraðsmótunum í frjálsum

Vinsælast

70 keppendur tóku þátt í héraðsmóti HSK og héraðsmóti fatlaðra sem haldin voru á Selfossi á tveimur kvöldum fyrr í þessari viku. Keppendur komu frá sex aðildarfélögum sambandsins. Gestaþátttaka var heimil og tóku nokkrir þátttakendur frá fimm félögum utan héraðs þátt í mótunum.

Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá Sigurjón Ægi Ólafsson úr Suðra meðal þátttakenda. Sigurjón er þekktari sem kraftlyftingamaður og var í fyrra valinn íþróttamaður HSK vegna árangurs í þeirri grein. Hann mætti nú á sitt fyrsta héraðsmót í frjálsum og kastaði þar kúlu og kringlu og stóð sig vel.

100 metra hlaup karla. Ljósmynd: HSK.

Á héraðsmótinu voru veitt verðlaun fyrir stigahæsta karl og konu á mótinu. Anna Metta Óskardóttir frá Selfossi var stigahæst kvenna með 33 stig og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Selfossi vann stigabikarinn í karlaflokki með 24 stig. Lið Umf. Selfoss hafði mikla yfirburði í stigakeppni þátttökuliða og hlaut 397 stig, Hekla varð í öðru sæti með 32 stig og Garpur í þriðja með 22 stig.

Eitt HSK met var sett á héraðsmótinu í yngri aldursflokkum, en Ívar Ylur Birkisson úr Dímon hljóp á 15,98 sek í 110 metra grindahlaupi á 106,7 cm grindur í flokki 16-17 ára. Gamla metið átti Tungnamaðurinn Róbert Einar Jensson, sem var 16,2 sek, sett 1992.

Ólafur Guðmundsson að bæta HSK metið í spjóti í sínum aldursflokki. Ljósmynd: HSK.

Ólafur Guðmundsson Selfossi var á meðal þátttakenda og hann setti samtals 12 HSK met í flokki 55-59 ára í kúlu, kringlu, spjóti og sleggju. Hann bætti kúluvarpsmet Einars H. Haraldssonar, kringlukastmet Sveins J. Sveinssonar, sleggjukastmet Kjartans Lárussonar og spjótkastmet Tómasar Jónssonar. Þá setti Árný Heiðarsdóttir Selfossi þrjú HSK  met í flokki 65-69 ára í kúlu og kringlu. Metið í kúlunni átti Helga Ívarsdóttir.

Heildarúrslit mótsins eru á www.fri.is.

HSK

Nýjar fréttir