-8.2 C
Selfoss

Ofnbakaður kjúlli með frískandi kóríanderjógúrtsósu og döðlusalati

Vinsælast

Dagný Lóa Sighvatsdóttir er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil fá að byrja á að þakka henni Júlíönu fyrir áskorunina, skemmtileg eldskírn inn í samfélagið á Selfossi! Ég hef ekki verið þekkt af mínum nánustu sem mikill kokkur en það sem ég elska er allt sem er ferskt og fljótlegt! Eftir að við fluttum úr borginni höfum við grætt meiri gæðastundir með börnunum og okkur sjálfum. Ég hafði lengi verið á leiðinni að gera eitthvað af síðu mágkonu minnar og lét af því verða fyrir stuttu! En hún er með jana.is þar sem hægt er að finna endalaust af hollum og girnilegum uppskriftum!

Mér finnst oft meðlætið skipta mestu máli svo hér á eftir kemur uppáhaldið mitt.

Það sem ég gerði var að elda heilan kjúkling í ofni, salta hann vel og krydda eftir smekk.

Frískandi kóríanderjógúrtsósa

2 box kóríander
Smá bútur af fersku engiferi
1 tsk cummin-duft
1/6 tsk svartur pipar
1/2 tsk salt eða eftir smekk
2 tsk sítrónusafi
1 tsk hunang
1 bolli laktósafrí grísk jógúrt eða nýja hreina hafrajógúrtin frá Veru Örnudóttur.

Öllu blandað saman með töfrasprota eða í góðum blandara.

Ótrúlega frískandi og fersk köld sósa sem hentar með fiski, mexíkönskum og grillmat.Þessa sósu átti ég svo áfram í krukku í ísskápnum og gat notað næstu daga!

Döðlusalat

Hálfur poki af blönduðu salati
1/2 gúrka, smátt skorin
Döðlur, steinlausar saxaðar
Eitt avókadó, smátt skorið í teninga
1/2 mangó, smátt skorið
1 rauð paprika, smátt skorin
50 gr heslihnetur
100 gr pekanhnetur

Hneturnar ristaðar á þurri pönnu á lágum hita í 1-2 mínútur

Öllu nema helmingnum af hnetunum er húrrað saman í skál og hrært saman. Toppað með restinni af ristuðu hnetunum.

Ég þakka fyrir mig og vil fá að skora á hana Jennýju Lind til að koma með eitthvað extra girnilegt í næsta blað!

Nýjar fréttir