-6.1 C
Selfoss

Stefan Orlandi kom með bikarinn yfir brúna annað árið í röð

Vinsælast

Þriðja og síðasta umferð Íslandsmeistaramótsins í kappakstri mótorhjóla fór fram á kappakstursbraut Kvartmíluklúbbsins í Hafnarfirði þann 10. ágúst síðastliðinn. 

Ítalski Selfyssingurinn Stefan Orlandi landaði þar Íslandsmeistaratitlinum í götuhjólakappakstri annað árið í röð eftir að hafa haft mikla yfirburði í keppnum sumarsins og endurtekið leikinn frá því í fyrra með því að slá eigið brautarmet í úrslitaviðureigninni en hann fór brautina, sem er 2.410 metrar, á tímanum 1:22:466 á Honda CBR 600rr.

Þrjár keppnir fara fram á keppnistímabilinu, keppt er í tveimur lotum og tímatöku í hvert sinn. Stefan var í í 1. sæti í fjórum af sex lotum tímabilsins, 2. sæti í tveimur og lauk keppni með 140 stigum, en á eftir honum komu Jóhann Leví Jóhannsson með 114 stig og Árni Þór Jónasson með 110 stig.

Í samtali við Dagskrána segir Stefan að tilfinningin að hreppa Íslandsmeistaratitilinn sé mjög góð. „Gott að vinna tvisvar í röð til þess að undirstrika góðan árangur og ég er ánægður með að hafa bætt brautarmetið mitt síðan í fyrra.“ 

Þá segist hann mjög þakklátur þeim sem hafi stutt hann í gegnum þetta ferli. „Og þar að leiðandi gefið mér tækifæri á að stunda þetta frábæra sport. Fyrst og fremst er ég þakklátur fjölskyldu minni og vinnuveitandanum mínum. Nú tekur við biðin eftir næsta sumri en sem betur fer hefur maður nóg að brasa fram að því meðal annars að fara á MotoGP kappakstur á Ítalíu í september. Síðan kemur pílutímabilið og þar á eftir kemur vonandi nóg af snjó svo hægt sé að skella sér á snjóbretti,“ segir Stefan kátur að lokum.      

Nýjar fréttir