Atvinnulífið blómstrar í Ölfusi. Sveitarfélagið og innviðir þess standa sterkum fótum og tækifærin eru fjölmörg. Eitt þeirra tækifæra sem blasa við er að ýta undir sérstöðu sveitarfélagsins sem býður upp á raunverulega einstakt svæði til brimbrettaiðkunar, ekki aðeins á landsvísu heldur á heimsvísu. Svæðið er hins vegar í mikilli hættu vegna þess að meirihluti sveitarfélagsins hefur samþykkt að moka yfir það landfyllingu. Það er illa rökstudd aðgerð og á engan hátt í samhengi við hönnun á stækkun hafnarinnar sem nú er að eiga sér stað. Ekki hafa enn verið færð fullnægjandi rök fyrir landfyllingunni sem réttlæta það að eyðileggja tækifærin sem fylgja því að vera eina sveitarfélagið á Íslandi sem býr að öldu sem þessari og jafnframt eyðileggja varanlega fyrir ört stækkandi brimbrettaíþrótt.
Brimbrettaparadísin Ölfus
Aldan í Þorlákshöfn er besta brimbrettaalda í Skandinavíu. Hún brotnar á flóði og fjöru. Hún er mjög löng eða 300 metrar þegar best lætur og er það afar sérstakt. Hún er mjög aðgengileg og áhættulaust er bæði að komast ofan í sjóinn ofan við ölduna og upp úr sjónum neðan við hana. Aldan brotnar í báðar áttir og brotnar bæði við lítið brim og þegar öldurnar eru risastórar. Af þessum sökum hentar hún breiðum hópi iðkenda, bæði byrjendum og lengra komnum. Botninn við ölduna er með stóru rúnuðu grjóti sem er einstakt á suðurströnd landsins. Það gerir það að verkum að yfirborð sjávar verður slétt þegar aldan brotnar. Víðast hvar á suðvestur horninu er sjávarbotninn grófur og úfinn og því er þessi staður í Þorlákshöfn sá eini á Suðurlandi öllu sem gerir brimbrettafólki kleift að stunda sína íþrótt.
Þorlákshöfn er algjör paradís fyrir brimbrettaiðkun því austan megin við höfnina er löng sandfjara þar sem byrjendur í íþróttinni geta fetað sín fyrstu skref og náð upp færni. Þegar næg færni er til staðar færa þau sig hinum megin við bryggjuna, við Hafnarnesvita þar sem umrædd alda verður til. Hún er fyrir lengra komna og því nauðsynleg íþróttinni svo hægt sé að taka framförum í meira krefjandi aðstæðum sem svipa til þeirra sem eru erlendis. Þessu má líkja við miserfiðar skíðabrekkur, þar sem allir iðkendur geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Kosturinn við brimbrettaíþróttina er sá að svæðið kostar ekkert, það er komið til af náttúrunnar hendi en sé það ekki varðveitt mun það hverfa að eilífu.
Íþrótt í vexti kallar á breytingar
Í Brimbrettafélagi Íslands eru sömu aðilar og börðust fyrir því fyrir um 20 árum síðan að snjóbrettaiðkendur fengju að nota skíðalyfturnar í Bláfjöllum. Á þeim tíma var það ekki leyfilegt en þykir nú sjálfsagt. Snjóbrettaíþróttin var þá að ryðja sér til rúms en nú er eðlilegt að snjóbretti ferðist um skíðabrekkurnar rétt eins og skíði og fjölmargir eiga brettabúnað og stunda íþróttina. Á sama hátt er brimbrettaíþróttin ný hér á landi en fer ört vaxandi og eru nú um 500 manns í Brimbrettafélagi Íslands. Aldan við Hafnarnesvita er eins og fyrsta flokks skíðasvæði af náttúrunnar hendi. Ímyndið ykkur ef það ætti að moka niður eða steypa yfir Bláfjöll.
Undirrituð hitti nýgift hjón sem sátu á kaffihúsi í Þorlákshöfn og sögðu frá því að þau hefðu valið að koma til Þorlákshafnar gagngert til þess að stunda brimbretti á þessari einstöku öldu, alla leið frá Ástralíu. Fyrstu heimildir um það þegar skrifað var um svæðið og ölduna í Þorlákshöfn eru úr tímaritinu SURFER frá árinu 1997. Síðan þá hefur verið fjallað um hana í ýmsum heimildarmyndum og virtustu tímaritum sem tengjast íþróttinni. Þau sem stunda brimbretti eru á margan hátt eins og fólk sem vill klífa ólík fjöll og ferðast um heiminn til þess að upplifa markverðustu staði heims. Aldan við Hafnarnesvita í Þorlákshöfn er einn af þessum markverðu stöðum heims fyrir þau sem stunda brimbrettaíþrótt. Okkar eigin Kilimanjaro, K2 og Everest.
Útivistarparadísin Ölfus
Nú hefur mikið verið rætt um fjögur hótel sem eiga að rísa í og við Þorlákshöfn, sum komin af stað og önnur á hugmyndastigi. Ef ég væri að horfa í tækifærin fyrir slíka fjárfestingu myndi ég líta til þess hvaða sérstöðu sveitarfélagið Ölfus hefur og sjá að það er algjör útivistarparadís. Í Þorlákshöfn er einn af bestu golfvöllum landsins, langir og góðir reiðstígar, frábær sundlaug, mótorkrossbraut, fjallahjóla- og æfingasvæði og auðvitað allar gönguleiðirnar meðfram ströndinni og upp til fjalla, Reykjadalur og fleiri. Brimbrettaiðkun setur algjörlega punktinn yfir i-ið í að marka sveitarfélaginu sérstöðu sem útivistarparadís. Hægt væri að sækja fram bæði á erlendan markað og innlendan, fyrir byrjendur jafnt og lengra komna ef við sem stjórnum sveitarfélaginu höfum vit á því að vernda svæðið sem markar þessa sérstöðu. Aldan sem um ræðir er segullinn sem Þorlákshöfn hefur lengi leitað eftir til þess að byggja upp ferðaþjónustu. Þessi segull er í túnfætinum beint fyrir framan okkur – þessi segull kostar ekki krónu heldur aðeins viljann til að varðveita hann.
Það er auðvelt að sjá fyrir sér uppbyggingu við Hafnarnesvita sem dregur fleira fólk að. Heitar laugar, veitinga- og útsýnisstaðir, leikvöllur sem nýtir efniviðinn á svæðinu og aðstaða fyrir fólk sem vill stunda sjóinn sem dæmi. Það er ekki eftirsóknavert að byggja upp hótel og laða að skemmtiferðaskip til þess eins að vera næturstaður og sjá fólk keyra burt úr bænum eftir morgunmat. Það er eftirsóknavert að verða eftirminnilegur áfangastaður með fjölbreyttar upplifanir á allra færi. Þar liggja tækifærin fyrir íbúa í Ölfusi. Ef ég væri erlendur ferðamaður þætti mér sjálfsagt eftirminnilegt að sjá brimbrettaiðkendur út í ísköldu Atlantshafinu og jafnvel fá tækifæri til að prófa. Það væri algjörlega einstök upplifun.
Sú mikla uppbygging í atvinnulífinu í Ölfusi sem er á teikniborðinu getur sannarlega verið jákvæð ef hún er unnin í samráði við íbúa, aðra hagsmunaaðila og í sátt við náttúruna. Sveitarfélagið hefur ekki staðið fyrir einum einasta íbúafundi í tengslum við þessi verkefni og starfar meirihlutinn og bæjarstjóri þeirra án atvinnustefnu. Minnihlutinn hefur ítrekað kallað eftir því síðustu tvö ár að farið verði í vandaða vinnu við gerð atvinnustefnu með þátttöku íbúa. Atvinnuupbygging verður að stuðla að hagkvæmri þróun byggðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi eins og segir í aðalskipulagi sveitarfélagsins sem bæjarstjóri sagði nýlega í fréttum RÚV að væri ígildi atvinnustefnu. Í aðalskipulagi segir líka að nýting auðlinda verði að vera sjálfbær og að landnýting stuðli að heilnæmu umhverfi og verndun og varðveislu sérstæðrar náttúru, menningar og sögu sem felst meðal annars í byggingararfi og landslagi.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir,
Bæjarfulltrúi í Ölfusi