5 C
Selfoss

Ágústa hlaut lista- og menningarverðlaun Ölfuss 2024

Vinsælast

Ágústa Ragnarsdóttir hlaut lista og menningarverðlaun Ölfuss árið 2024 fyrir ómetanlegt starf í þágu menningarmála í Ölfusi og fyrir öflugt og eftirtektarvert framlag til listar, fræðslu og hönnunar í heimabyggð.

Ágústa hefur komið víða við í menningarlífinu í Ölfusi og hefur verið virkur þátttakandi frá unga aldri. Ágústa er grafískur hönnuður að mennt og atvinnu. Hún hefur komið að fjölbreyttum verkefnum í Ölfusi bæði sem hugmyndasmiður og hvatakona. Hún er formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar sem í ár fagnaði 40 ára afmæli. Lúðrasveitin hefur unnið mörg stórvirki á sviði tónlistar og býr yfir sterkum mannauð sem sannarlega brettir upp ermar og er Ágústa þar fremst á meðal jafningja.

Ágústa er þekkt fyrir að vera samstarfsfús og viljug til góðra verka í sínu nærumhverfi. Hún hefur komið að eða haft frumkvæði að sem dæmi útisögusýningum við Selvogsbraut, söguskiltum á hverfisverndarsvæðinu, merkjum fyrir sveitarfélagið, jólaóróum Lúðrasveitarinnar og veggjalistaskreytingum á veggjum bæjarins.

Á hátíðum hafa þau hjónin, Ágústa og Þórarinn, boðið íbúum og gestum heim á listviðburði og var litla heimagalleríið opið hjá þeim á bæjarhátíðinni „Hamingjan við Hafið“ um liðna helgi.

Þessi upptalning er engan veginn tæmandi en Ágústa er vel að þessum verðlaunum komin enda hefur hún verið einstaklega virk og afkastamikil allan sinn feril, eins og fram hefur komið, og má segja að afkastageta Ágústu fari stigvaxandi með aldrinum.

Nýjar fréttir