11.7 C
Selfoss

Íbúaþróun í Hveragerði

Vinsælast

Friðrik Sigurbjörnsson
Bæjarfulltrúi og oddviti D-listans í Hveragerði.

Hún var athyglisverð samantektin hjá Morgunblaðinu um helgina, sem unnin var úr gögnum frá Þjóðskrá um íbúaþróun í sveitarfélögum frá 1. desember 2023 til 1. ágúst 2024. Það sem helst vakti athygli mína er að Hveragerði, sem í mörg ár tróndi á toppnum yfir fjölgun íbúa í sveitarfélögum á Suðurlandi, situr nú neðst á þeim lista.

Íbúafjölgun á þessu tímabili í Hveragerði er einungis um 0.4% eða um 14 manns. Á sama tíma fjölgar íbúum í Hrunamannahreppi um 53 manns, Rangárþingi Eystra um 85 manns, Ölfusi um 106 manns og í Árborg um 358 manns. Til samanburðar fjölgaði íbúum í Hveragerði árið 2022 um 207 og árið 2023 um 157.

Maður fer óhjákvæmilega að velta fyrir sér hver ástæðan fyrir þessari litlu íbúafjölgun í Hveragerði sé. Þegar skoðað er hvað hefur verið gert í Hveragerði frá síðustu kosningum eða á síðustu 2 árum til að halda áfram að byggja upp og efla Hveragerði kemur í ljós að nær engin uppbygging á innviðum bæjarins hefur orðið. Fáar lóðir verið úthlutaðar, loforð um uppbyggingu íþróttamannvirkja hafa ítrekað verið svikin, sofanda háttur í uppbyggingu fráveitumannvirkja og engin uppbygging í leikskólamálum þar til nú með umdeildri viðbyggingu við leikskóla. Allt eru þetta grundvallar atriði sem þurfa að vera í lagi til að laða fólk að í sveitarfélagið.

Uppbygging innviða samhliða íbúafjölgun er mikilvæg og þetta höfðum við á D-listanum að leiðarljósi árin sem við vorum í meirihluta, enda sýna tölur um fjölgun íbúa það bersýnilega og sú mikla uppbygging sem var í sveitarfélaginu. Eftir síðustu kosningar höfum við ítrekað bent á og komið fram með lausnir til að byggja áfram upp innviði sem núverandi meirihluti hefur oftast ekki viljað hlusta á.

Mikið hefur verið rætt um það í fjölmiðlum og víðar að undanförnu að auka þurfi framboð á lóðum og íbúðarhúsnæði og að sveitarfélögin verði að leiða þá þróun. Það er nægt land til að byggja á í Hveragerði og fjárhagsstaða sveitarfélagsins síðasta áratuginn hefur verið sterk. Hveragerði hefur alla burði til að halda áfram að tróna á toppnum á þessum lista.

Nú þarf að blása til sóknar í stað stöðnunar.

Nýjar fréttir