Það rík ástæða fyrir því að sveitarfélög verðlauna fólk sem hugsar vel um húsin sín og húsagarðana. Þegar íbúar hugsa vel um eignir sínar, bætir það almennt umhverfi sveitarfélagsins. Vel við haldin hús og garðar gera svæðin meira aðlaðandi fyrir bæði íbúa og gesti, og stuðlar samhliða að auknu stolti íbúa og jákvæðri ímynd sveitarfélagsins.
Þetta á sannarlega við í Ölfusi. Annaðhvert ár verðlaunum við góða umhirðu húsnæðis og garðameð svokölluðum umhverfisverðlaunum. Við höfum fundið að þannig getum við stuðlað að aukinni samfélagsvitund og samheldni. Þessar viðurkenningar verða til þess að fólk verður beturmeðvitað um nærumhverfi sitt. Þá er það einnig svo að vel viðhaldið hverfi er líklegra til að halda eða jafnvel auka verðmæti fasteigna í sveitarfélaginu.
Við sem skipum Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss höfum nú valið hverjir hjóta Umhverfisverðlaun fyrir árið 2024 og eiga þar með að okkar mati fallegustu garða sveitarfélagsins. Sem fyrr segir eru þessi verðlaun eru veitt annaðhvert ár og á móti því eru veitt verðlaun fyrir snyrtilegustu fyrirtækin og snyrtilegustu götuna.
Verðlaunin hafa þegar verið veitt og er niðurstaða nefndarinnar eftirfarandi:
Skálholtsbraut 1, Þorlákshöfn.
Skálholtsbraut 1 tilheyrir elsta hluta Þorlákshafnar og er því partur af gömlu byggðinni, sú byggð verður til áður en Landgræðsla hefst og fer að skila árangri umhverfis bæinn. Því hefur verið gríðarleg vinna að halda snyrtilegan garð í árdaga byggðarinnar. Ársæll Guðmundsson hefur búið í Þorlákshöfn um langa hríð og hefur lóð Ársæls alla tíð verið til fyrirmyndar, snyrtileg og stílhrein.
Finnsbúð 9, Þorlákshöfn
Hjónin Sigríður Sveinsdóttir og Sigurður Bjarnason hafa lagt mikla vinnu í að gera lóð sína gríðarlega fallega, þau tilheyra nýrri byggð Þorlákshafnar. Umhverfi lóðar þeirra gleður augað hvar sem á er litið og er öðrum hvatning að fegra umhverfi sitt.
Gil, Ölfusi
Þorbjörg Lilja Jónsdóttir og Stefán Magnússon á Gili í Ölfusi byggðu sér hús á túni foreldra Þorbjargar fyrir um tuttugu árum síðan. Í upphafi þurftu þau að koma niður trjám í útjaðri til að búa til skjól á lóð sinni, eftir það gátu þau lagt allt kapp í lóðina umhverfis húsið. Lóðin þeirra sem nú er orðin glæsileg skartar skrautrunnum af ýmsum gerðum innan um grjóthleðslur og gosbrunna.
Um leið og ég hvet íbúa til að taka þátt í bæjarhátíðinni Hamingjan við hafið vil ég minna á að verðlauna garðarnir verða til sýnis fyrir gesti bæjarhátíðarinnar á sunnudaginn 11. ágúst milli kl. 13 og 15. Þar er margt að sjá og margar hugmyndir munu örugglega kvikna en í öllum þeim görðum sem verða til sýnis má finna ýmislegt sem gleður auga og yljar hjarta.
Geir Höskuldsson,
Formaður Skipulags- og umhverfisnefndar