11.7 C
Selfoss

Lífrænar hringrásir

Vinsælast

Verkefnið snýst um að bjóða elsta stigi grunnskólanema í Árnessýslu á sýningu haustsins á Listasafni Árnesinga „Lífrænar hringrásir” auk þess að vinna skapandi starf með unglingum að framtíðarsýn listasafnsins. Sýningin er samspil lista og vísinda og er samsýning íslenskra og erlendra listamanna.

Sýningin mun höfða vel til eldri hópa grunnskólanema og geta grunnskólakennarar m.a. nýtt sér sýninguna sem kveikju að ólíkum málefnum og halda áfram að vinna með innan skólans. Grunnskólar í Árnessýslu eru 11 talsins og er mikilvægt að allir fái tækifæri á að heimsækja safnið og upplifa sýninguna óháð búsetu.

Sýningin er tengd ýmsum rannsóknum listamanna á náttúru og vísindum. Listamennirnir hafa allir á síðustu árum unnið að rannsóknum þar sem náttúran spilar stóran sess. Það verða svæði þar sem mosi verður ræktaður og hægt verður að fylgjast með ferlinu, verk sem sýnir hvernig mygla myndast – hvernig hún er lifandi og hægt er að fylgjast með hvernig hún mótast. Einn listamannanna rannsakar jarðhræringar og annar listamaður vinnur með lúpínu sem var flutt inn til Íslands frá Kanada sem skiptar skoðanir eru á. Til viðbótar er annar listamaður sem vinnur með vind – nú þegar að það er verið að tala um að beisla vind við Íslandsstrendur.

Franskur hópur listamanna og vísindamanna sýnir verk sitt Volvox, sem táknar lífið. Í verkinu má sjá kúlulaga þyrpingar einfrumuþörunga sem deila sameiginlegu rými í ferskvatni. Nemendur fá að spjalla við listamennina og fá innsýn í gerð listaverkanna og hugmyndafræði. Ýmsir vísindamenn munu einnig taka á móti hópunum og fræða nemendur um ýmis náttúrufyrirbrigði og vistkerfi jarðarinnar.

Auk þess hefur safnið myndað ungmennaráð unglinga í sýslunni sem mun sinna skapandi starfi með safninu í haust þar sem þau ímynda sér framtíðarsýn safnsins og hvaða möguleika má finna til að miðla safninu. Þau munu vinna með haustsýninguna „Lífrænar hringrásir”, fá að kasta á milli sín hugmyndum og útfæra svo hugmyndir sínar í samvinnu við safnið. Verkefnið snýst um lýðræðislega nálgun og valdeflingu þar sem yngri kynslóðin fær að koma sínum hugmyndum og þekkingu á framfæri, hafa áhrif á stofnun sem sinnir listum og menningu og veita þeim vettvang til skapandi hugsunar.

Verkefnið hefur hlotið styrk frá Barnamenningarsjóði, Landsvirkjun og List fyrir alla og eru fulltrúar Listasafns Árnesinga afar ánægðir með þennan mikilvæga stuðning.

Nýjar fréttir